Leikur kvöldsins

Þá er komið að öðrum leik í úrslitum íslandsmótsins og að þessu sinni fer hann fram í Skautahöllinni í Laugardal og hefst klukkan 19.00. Einsog hokkímenn vita eru það lið Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar sem keppa. Ástæða er til að hvetja stuðningsmenn beggja liða til að fjölmenna og hvetja sitt lið. Af fyrsta leik liðanna að dæma koma þau bæði vel undirbúin til leiks og því geta áhorfendur átt von á hörkuspennandi leik í kvöld.

Ekki er annað vitað en að allir leikmenn séu heilir og tilbúnir í slaginn þótt ástandið á mönnum sé sjálfsagt misjafnlega gott. SR-ingar koma að sjálfsögðu með það að markmiði í kvöld að ná 2 - 0 forystu í einvíginu rétt einsog að SA-menn ætla sér að jafna það.

Þess má að lokum geta að fyrir þá sem hafa gaman að því að spila á Lengjunni að þá er hægt að leggja undir leikinn. Heimasigur gefur stuðulinn 2,25 en jafntefli gefur 3,4. Útisigur hefur hinsvegar stuðulinn 1,95. Hvernig stuðlameistarar Lengjunnar komust að þessari niðurstöðu er hinsvegar ekki vitað.

Sigurgeir Haraldsson tók myndina.

HH