Leikur kvöldsins

Í kvöld klukkan 19.30 leika í Egilshöllinni lið Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki karla. SR-ingar gerðu ágætis ferð til Akureyrar um liðna helgi og þrátt fyrir að tapa fyrri leiknum náðu þeir að svara fyrir sig í þeim síðari með góðum sigri. Sigurinn þýddi fyrir SR-inga að þeir eru enn skammt á eftir SA-mönnum í keppninni og því allir möguleikar opnir ennþá. Bjarnarmenn á hinn bóginn hafa ekki náð að landa nema einum sigri þetta tímabilið og ef þeir ætla að vera með verða þeir að fara að hala inn stig. Þeir eiga á næstu fimm dögum þrjá leiki fyrir höndum og þeim er nauðsynlegt að ná stigum úr einhverjum af þessum leikjum. Ekki er vitað um nein alvarlega meiðsli á leikmönnum, Þórhallur Viðarsson varnarmaður SR hefur glímt við nárameiðsli. Hjá Bjarnarmönnum gæti bæst í hópinn varnarmaðurinn Róbert Freyr Pálsson sem nýkominn er heim frá Bandaríkjunum en hann hefur síðastliðin ár verið fastamaður í unglingalandsliðum okkar. Ekki er þó útséð um þátttöku Róberts því enn liggur ekki fyrir leikheimild honum til handa. Sjáumst hress í Egilshöll klukkan 19.30   

Myndina tók Jakob Fannar Sigurðsson.

HH