Leikur kvöldsins

Leikur kvöldsins að þessu sinni er leikur SR Fálka og Húna í meistaraflokki karla og fer hann fram í Skautahöllinni í Laugardal. Leikurinn hefst klukkan 19.00 en það er breyting frá upphaflegum leiktíma sem var 20.15.

SR-Fálkar léku síðasta leik tímabilsins fyrir jól og hefðu sjálfsagt kosið að fá betri jólagjöf en liðið lá fyrir Jötnum sem gerðu á þá fimmtán mörk gegn einu. SR-Fálkar munu því sjálfsagt vilja gleyma þeim leik sem fyrst enda sá næsti kominn. Svavar Steinsen sem leikið hefur í Laugardalnum er mættur aftur til leiks eftir að hafa dvalið erlendis undanfarið.

Húnar, rétt einsog SR Fálkar, áttu erfitt í síðasta leik en liðið, rétt einsog SR Fálkar, lék þá gegn Jötnum og mátti þola 10 - 2 tap. Vilhelm Már Bjarnason sem lengi lék með liði Bjarnarins en dvalið hefur í Finnlandi undanfarið mun taka fram skautana í kvöld og leika með Húnum.

Liðsliðstar verða komnir upp á tölfræðisíðuna okkar síðar í dag en svo er bara um að gera að skella sér í Laugardalinn og horfa á hokkí yfir hátíðirnar.

HH