Leikur kvöldsins

Úr leik liðanna á síðasta tímabili
Úr leik liðanna á síðasta tímabili

Leikur kvöldsins er leikur Víkinga  og Skautafélags Reykjavíkur og fer hann fram í skautahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 19.30

Einsog áður hefur komið fram hafa Víkingar misst nokkuð af mannskap síðan á síðasta tímabili en um síðustu helgi bættist í hóp þeirra danskur leikmaður að nafni Lars Foder og fróðlegt verður að sjá hversu mikið hann á eftir að styrkja liðið. Enn hafa Stefán Hrafnsson og Gunnar Darri Sigurðsson ekki leikið með norðanmönnum og tíminn einn á eftir að leiða í ljós hvort svo verður.

Rétt eins og norðanmenn misstu SR-ingar nokkuð af mannskap eftir síðasta tímabil. SR-ingar munu þó mæta með sterkt lið norður yfir heiðar. Þórhallur Viðarsson og Tómas Tjörvi Ómarsson hafa náð sér af meiðslum sem hrjáðu þá. Einnig hefur Arnþór Bjarnason tekið út leikbann sem hann hlaut á síðasta tímabili. Eitthvað var um veikindi innan hópsins en maður kemur í manns stað. 

Það er því hægt að lofa hörkuleik fyrir norðan í kvöld og full ástæða fyrir áhorfendur til að fjölmenna. Netlýsing, fyrir þá sem ekki eiga heimangengt, frá eiknum ætti að vera hér á vefnum hjá okkur í kvöld og birtum við sérstaka frétt um það þegar nær dregur.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH