Leikur kvöldsins

Mynd: Ómar Þór Edvardsson
Mynd: Ómar Þór Edvardsson

Í leik kvöldsins að þessu sinni mætast lið Húna og Skautafélags Reykjavíkur og fer leikurinn fram í Egilshöllinni og hefst klukkan 19.30.

Skautafélagið Björninn ákvað þetta tímabilið að senda tvö lið til keppni í meistaraflokki karla og eftir mikla yfirlegu varð Húnar valið sem nafn á liðið. Samkvæmt því sem best er vitað verða Húnarnir  byggðir upp á yngri leikmönnum félagsins ásamt því sem liðið verður styrkt með eldri leikmönnum einsog reglugerðir leyfa. Sergei Zak hefur tekið fram skautana að nýju og sóknarmaðurinn Ólafur Hrafn Björnsson er kominn aftur í Grafarvoginn. Norðanmaðurinn Birkir Árnason er einnig genginn til liðs við félagið en á móti kemur að félagið hefur misst nokkuð af leikmönnum sem leika erlendis á þessu tímabili.

SR-ingar hafa frá síðasta tímabili misst Pétur Maack til Svíþjóðar og Kári Guðlaugsson sem farinn var að banka á dyrnar hjá meistaraflokknum leikur í Belgíu þennan veturinn. Varnarmennirnir Gunnlaugur Karlsson og Kári Valsson eru horfnir af braut í bili svo og finninn Timo Koivumaeki. SR-ingar hafa hinsvegar einnig bætt í. Snorri Sigurbjörnsson er mættur til leiks en Snorri hefur um langt árabil búið í Noregi og leikið þar. Snorri hefur leikið með landsliðum Íslands, bæði karla og U20 ára landsliði. Einnig er mættur leiks aftur, Daniel Kolar, en hann er íslenskum hokkíáhugamönnum vel kunnur. SR-ingar fengu einnig ungan leikmann frá Bandaríkjunum, Robbie Sigurdsson. Robbie á hinsvegar ekki heimangengt í kvöld en gaman verður að sjá hann í leik.

HH