Leikur helgarinnar SA - SR

Það var mikið um dýrðir hjá norðanmönnum þessa helgina einsog áður hafði komið fram á síðunni okkar. Skautafélag Akureyrar hélt upp á 70 ára afmæli sitt og á laugardagskvöldinu léku heimamenn gegn SR-ingum. SR-ingar voru hinsvegar í þetta sinnið lítið fyrir að gefa afmælisgjafir og unnu leikinn 4 - 6. Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og þungar sóknir sunnanmanna skiluðu þeim árangri að eftir fyrstu lotu var staðan 0 - 3 þeim í vil. Stefán "Hinn Rauði" Hrafnsson átti skemmtilega endurkomu, eftir að hafa verið meiddur nokkurn veginn allt tímabilið, og setti tvö af þeim þremur sem sett voru í fyrstu lotu. Í byrjun annarar lotu leit út fyrir að norðanmenn væru á leið inn í leikinn því þegar rúmlega fjórar mínútur voru liðnar af henni skoraði Björn Már Jakobsson mark fyrir heimamenn. SR-ingar voru hinsvegar ekkert á þeim buxunum að hleypa norðanmönnum inn í leikinn og tvö mörk á tveimur mínútum sáu til þess að þeir unnu lotuna 1 - 2 með mörkum frá Þorsteini Björnssyni og Petr Krivanek. Það var því orðið á brattann að sækja fyrir SA-menn þegar þriðja lotan hófst, þeir fjórum mörkum undir og greinilegt var að þeir söknuðu sárt Jóns Inga og Tomas Fiala. Það var samt langt frá því að norðanmenn væru hættir að berjast og næstu tvö mörk skoruðu þeir þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri á vellinum. Þar voru að verki Jón Gíslason og Elvar Jónsteinsson en sá fyrrnefndi fór mikinn í liði norðanmanna. Enn meira fjör færðist síðan í leikinn þegar Orri Blöndal bætti við einu markinu enn fyrir norðanmenn með skoti frá bláu línunni, einhver áhorfandi sagði að bíll hefði ekki getað gert betur. En þrátt fyrir ákafar tilraunir náðu SA-menn ekki að jafna og undir lokin tók, nýkjörinn íþróttamaður ársins úr Hveragerði, Úlfar Jón Andrésson til sinna ráða og gulltryggði SR-ingum sigur. Leikurinn var góð skemmtun fyrir þá fjölmörgu áhorfendur sem mættu og enn og aftur er mótið opið upp á gátt.

Mörk/stoðsendingar SA:

Jón Gíslason 1/2
Elvar Jónsteinsson 1/1
Björn Már Jakobsson 1/0
Orri Blöndal 1/0

Brottvikningar SA: 18 mín.

Mörk/stoðsendingar SR:

Stefán Hrafnsson 2/0
Daniel Kolar 1/1
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Petr Krivanek 1/0
Þorsteinn Björnsson 1/0
Gauti Þormóðsson 0/2
Mirek Krivanek 0/2
Steinar Páll Veigarsson 0/1

Brottvikningar SR: 62 mín.