Leikjafjöldi landsliðsmanna

Bjarni Gautason gjaldkeri ÍHÍ hefur tekið saman lista yfir leikjafjölda landsliðsmanna, mörk þeirra og stoðsendingar.

Landslið Íslands sem tekur þátt í heimsmeistarakeppninni hér í Reykjavík í næstu viku var valið á Páskadag. Í liðinu er hæfileg blanda leikmanna með mikla leikreynslu og yngri drengja sem eru nýlega farnir að reyna sig með karlalandsliðinu. Samkeppni um stöður í liðinu var harðari nú en oftast áður.  

Þetta er í 8. sinn sem ÍHÍ teflir fram liði í heimsmeistarakeppninni en íslenskt karlalið keppti í fyrsta sinn árið 1999 í Krugerstorp í Suður-Afríku. Árið eftir var keppnin haldin hér heima í fyrsta skiptið. Leið liðsins lá síðan til Spánar árið 2001 og til Novi Sad í Júgóslavíu árið 2002. Ári síðar, eða vorið 2003, lá leiðin til Sofíu í Búlgaríu. ÍHÍ tók aftur að sér gestgjafahlutverk og vorið 2004 léku strákarnir á heimavelli og unnu sig upp um deild. Í fyrra var haldið til Belgrade í Serbíu og Svartfjallalandi en því miður tókst liðinu ekki að halda sér í annarri deild.

Íslenska landsliðið freistar þess nú aftur að vinna sig upp um deild.
  Eins og sjá má í töflunni yfir leikmenn liðsins eru varnarmaðurinn Ingvar Þór Jónsson og sóknarmaðurinn Jónas Breki Magnússon leikjahæstir íslensku leikmannanna en þeir hafa báðir leikið 32 leiki með karlaliði Íslands á sl 7 árum. Jónas Breki er jafnframt lang markahæsti og stigahæsti (mörk + stoðsendingar) leikmaður liðsins frá upphafi. Fast á hæla þeirra hvað leikjafjölda snertir, koma sóknarmaðurinn Rúnar Rúnarsson með 31 leik og markvörðurinn Birgir Sveinsson með 29 leiki. Rúnar og Birgir hafa verið með í öllum mótum liðsins frá upphafi. Rúnar meiddist í keppninni í Belgrad í fyrra (2005) og varð að sleppa einum leik, en Birgir gat ekki verið með í 3 leikjum í kepninni í Novi Sad árið 2002.  

Meðal leikreyndari manna liðsins er Jón Gíslason en hann hóf feril sinn með karlalandsliðinu aðeins 16 ár gamall þegar mótið var haldið hér heima í fyrsta sinn. Jón er fyrsti atvinnumaður íslendinga í íshokkí en hann lék með Nordic Vikings í Asíu-deildinni sl. vetur, heimaborg liðsins er Beijing. Jón er léttleikandi og lipur leikmaður sem á örugglega eftir að sýna góða takta á mótinu.   Báðir núverandi markverðir liðsins tóku þátt í fyrsta mótinu 1999 og eru með leikreyndari mönnum liðsins. Í deildarkeppninni hér heima leikur Birgir með SR en Gunnlaugur með nýliðum Narfa. Meðal ungu leikmannanna eru þrír ungir drengir sem að mestu eru aldir eru upp í Svíþjóð og hafa spilað íshokkí þar frá blautu barnsbeini. Þetta eru bræðurnir Patrick og Daniel Eriksson og Emil Allengard en allir eiga þeir Íslenska móður, og völdu ungir að árum að leika fyrir hönd Íslands. Þessir ungu herrar eiga örugglega eftir að láta til sín taka á mótinu í Reykjavík.

Landslið Íslands á HM-2006, 3. deild, 24. - 29. apríl í Reykjavík  
# Útileikmenn Staða L M S
3 Birkir Árnason D 9 1 2
4 Guðmundur Ingólfsson D 5 0 0
5 Patrick Eriksson D 8 2 2
6 Jónas Breki Magnússon F 32 22 12
7 Guðmundur Björgvinsson D 14 1 5
8 Rúnar Rúnarsson F 31 12 6
9 Gauti Þormóðsson F 9 2 1
10 Úlfar Jón Andrésson F 5 1 1
11 Stefán Hrafnsson F 22 1 1
14 Jón Ingi Hallgrímsson F 9 3 4
16 Daði Örn Heimisson F 19 2 6
17 Jón Gíslason F 23 9 10
18 Brynjar Thordarsson F 5 0 0
19 Þórhallur Viðarsson D 5 0 0
21 Emil Allengard F 5 1 3
23 Daniel Eriksson F 5 2 0
24 Björn Már Jakobsson D 28 5 6
25 Ingvar Þór Jónsson D 32 11 9
# Markverðir   L Skot %Varið
26 Birgir Sveinsson GK 29 580 83.08
20 Gunnlaugur Björnsson GK 23 218 80.57
Skýringar: D = varnarmaður, F = sóknarmaður, GK = Markvörður, L = fjöldi Leikja, M = skoruð Mörk, S = Stoðsendingar, Skot = Skot á Mark, %Varið = % varinna skota