Leikir kvöldsins

Tveir leikir eru á dagskrá íslandsmótsins í íshokkí í kvöld og fara þeir fram á sitthvoru landshorninu.

Á Akureyri mætast SA Jötnar og SA Víkingar klukkan 19.30. Víkingar létu Jötna finna nokkuð til tevatnsins í síðasta leik sem endaði 12 - 2 þeim í vil. Með sigrinum náðu þeir að borga fyrir úrslitin í leiknum á undan en sá leikur endaði 2 -3 Jötnum í vil. Allmargir leikmenn Jötna voru fjarverandi í síðasta leik sem fram fór milli jóla og nýárs og því ættu Jötnar að geta stillt upp sterkara liði í kvöld. Í báðum leikjunum hefur lítið verið gefið eftir og einstaka leikmenn hafa þurft að yfirgefa ísinn fyrr en þeir gerðu ráð fyrir. Því er hægt að gera ráð fyrir að tekist verði á norðan heiða.

Í Egilshöllinni verður síðan leikur Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur í 2. flokki karla. Sá leikur hefst á sama tíma og leikurinn fyrir norðan, þ.e. klukkan 19.30

Mynd: Jóhann Björn Ævarsson

HH