Leikir kvöldsins

Leikir kvöldsins eru tveir og koma beint ofan í steikur undanfarinna daga. Annarsvegar mætast lið SR og Bjarnarins í Laugardalnum og hinsvegar SA Víkingar og SA Jötnar.

Leikur SR og Bjarnarins hefst klukkan 18.30 og fer fram í Laugardalnum. Sömu lið mættust í síðustu viku og þá unnu SR-ingar öruggan sigur með sjö mörkum gegn einu. Bjarnarmenn verða því að bíta í skjaldarrendur vilji þeir fá eitthvað út úr leiknum í kvöld. Liðið á þó nokkuð á brattann að sækja bæði hvað varðar meiðsli og leikbönn. Róbert Freyr Pálsson, Matthías Skjöldur Sigurðsson og Snorri Sigurbergsson voru allir úrskurðaðir í leikbann á fundum aganefndar og Gunnar Guðmundsson er enn meiddur. Hjá SR-ingum hefur Guðmundur Björgvinsson verið meiddur á hendi og Gunnlaugur Karlsson er í banni fyrir leik kvöldsins.

Norðan heiða mætast lið Víkinga og Jötna og hefst sá leikur klukkan 19.00. Þar er hokkíþorstinn sjálfsagt orðinn mikill þar sem norðanmenn léku ekki stuttu fyrir jól einsog sunnanmenn. Í síðasta leik liðanna komu Jötnar á óvart með því að sigra Víkinga 2 - 3 og því aldrei að vita hvað gerist. Rúnar Freyr Rúnarsson er í leikbanni í kvöld en aðrir leikmenn eiga að vera heilir.

Mynd: Jóhann Björn Ævarsson

HH