Leikir kvöldsins

Leikir kvöldsins eru tveir að þessu sinni og fara fram í sitthverjum landshlutanum. Báðir leikir hefjast klukkan 19.30. Á höfuðborgarsvæðinu er það Egilshöllin sem verður  aðalstaðurinn því þar fer fram leikur Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki karla. Þetta er fyrsti leikur þessara liða á þessu tímabili í íslandsmóti en liðin tóku eitthvað af æfingaleikjum fyrir mót. Ekki er annað vitað en að allir leikmenn beggja liða gangi heilir til skógar fyrir utan að SR-ingurinn Ragnar Kristjánsson er meiddur. Bjarnarmenn unnu um síðustu helgi SA Jötna með eins marks mun og ætla sér örugglega stigin sem í boði eru. SR-ingar á hinn bóginn töpuðu nokkuð óvænt sínum fyrsta leik gegn fyrrnefndum Jötnum og munu því mæta grimmir til leiks.

Í höllinni fyrir norðan mætast SA Jötnar og SA Víkingar. Aðeins sér á liði Jötnana þar sem Josh Gribben og Ingvar Þór Jónsson eru meiddir en liðið hefur komið á óvart og gert andstæðingunum lífið nokkuð leitt í sínum leikjum. Víkingarnir ættu því að eiga auðveldari leik en ella en þrátt fyrir að fyrrnefndir leikmenn hafi meiðst bættu Jötnarnir frekar í eftir að þeir fóru af velli. Sigurður Reynisson kom með sitt fyrsta meistaraflokksmark í síðasta leik með Jötnum og ekki ólíklegt að fleiri ungir leikmenn fái tækifæri.

Eitt er víst. Það er hokkíkvöld í kvöld. Góða skemmtun.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson.

HH