Leikir kvöldsins

Tveir leikir fara fram í kvöld. Annarsvegar mætast á Akureyri lið SA-eldri og SA-yngri og fer leikurinn að sjáflsögðu fram á Akureyri og hefst klukkan 19.00. Í hinum leiknum mæstast Björninn og Skautafélag Reykjavíkur í meistaraflokki karla og hefst sá leikur klukkan 19.15 og er í Egilshöllinni.

SA-eldri - SA-yngri.
Keppnin í meistaraflokki kvenna er einsog hokkímenn vita með töluvert öðru sniði þetta árið. Kvennaflokkur SA skráði tvö lið til leiks sem munu í lok tímabils sameinast í úrslitkeppni sem haldin verður um miðjan apríl. SA-eldra liðið hefur undanfarnar vikur verið að styrkjast, Birna Baldursdóttir, Guðrún Blöndal og Hrund Thorlacius eru byrjaðar aftur eftir stutt hlé. Bjarnarstúlkur hafa sjö stiga forskot á SA-eldri sem eiga þó leik til góða. Miðað við þau stig sem er í pottinum er því heimaleikjarétturinn enn á lausu.   


Björninn - SR
Karlaleikur kvöldsins er einsog áður sagði leikur Bjarnarins og SR. Oftast hefur það legið fyrir nokkru fyrir lok móts hvaða lið leika til úrslita. Nú hinsvegar ber það svo við að síðasti leikurinn í deildarkeppninni er hreinn úrslitaleikur. Ekki er annað vitað en að bæði lið tefli fram sínum sterkustu mönnum nema hvað Steinar Páll Veigarsson fyrirliði SR-inga er staddur erlendis um þessar mundir. Á brattann er að sækja fyrir Bjarnarmenn enda eru þeir þremur stigum á eftir SR-ingum ásamt því að hafa lakari markatölu.  Til að taka af allan vafa er hér úrdráttur úr reglugerð númer 14 hjá ÍHÍ. Hún segir til um hvernig málum er háttað. Grein nr. 4.1 í henni hljómar svona:

"Séu lið jöfn að stigum eftir forkeppni gildir markatala en sé hún einnig jöfn gildir markatala í innbyrðis viðureignum. Ef markatala úr innbyrðis viðureignum er einnig jöfn gilda fleiri mörk á útivelli. Sé það einnig jafnt skal spila úrslitaleik um sæti í úrslitum en kasta upp á valrétt um leikstað."

Þetta þýðir að Bjarnarmenn verða að vinna leikinn með 4 mörkum til að jafna stiga og markatölu SR-inga. Ef það gerist gildir markatala í innbyrðis leikjum. Markatalan í innbyrðis viðureignum félaganna er 32 -28 Birninum í hag áður en flautað er til leiks í kvöld.

HH