Leikir kvöldsins

Úr leik Víkinga og Bjarnarins fyrr í vetur
Úr leik Víkinga og Bjarnarins fyrr í vetur

Leikir kvöldsins eru tveir að þessu sinni og skipta kynin þeim jafnt á milli sín en leikirnir eiga það sameiginlegt að báðir hefjast klukkan 19.30.

Á Akureyri mætast Víkingar og Björninn í meistaraflokki karla en þar er á ferðinni ein af þeim spennandi viðureignum sem framundan eru hjá liðunum vegna baráttu þeirra um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Bæði liðin hafa leikið tólf leiki og eiga því eftir að leika fjóra leiki í deildarkeppninni áður en til úrslitakeppninnar kemur. Björninn hefur fyrir leikinn eins stigs forskot á Víkinga en liðin eiga eftir leikinn í kvöld eftir að mætast tvisvar sinnum í viðbót á tímabilinu. Flestir leikmenn beggja liða eru klárir, þó er óvíst með þátttöku Ingvars Þórs Jónssonar og Gunnars Darra Sigurðssonar í liði Víkinga og Aron Knútsson leikmaður Bjarnarins er í leikbanni.

Í Egilshöllinni mætast síðan lið Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki kvenna. Eins og komið hefur fram undanfarið berjast Björninn og Skautafélag Akureyrar um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppni kvenna og gæti svo farið að rétturinn réðist af markahlutfalli liðanna. Bjarnarkonur, sem fyrir leikinn hafa 21 mark í forskot á SA-konur,  munu því í kvöld gera sitt ítrasta til að auka muninn gagnvart norðankonum enn frekar. Liðslistar liðanna liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað en ekki betur vitað en að allir leikmenn liðanna séu heilir.

Mynd: Ásgrímur Ágústsson

HH