Leikir kvöldsins

Leikir kvöldsins eru tveir að þessu sinni en báðir eru þeir í meistaraflokki karla.

Fyrri leikurinn hefst klukkan 19.30 en þar mætast SA Víkingar og UMFK Esja og fer leikurinn fram á Akureyri. Víkingar unnu nokkuð öruggan sigur á SR-ingum um liðna helgi þrátt fyrir að vera ekki fullmannaðir. Fjóra leikmenn vantaði í hópinnog ekki ólíklegt að einhverjir þeirra verði með í kvöld. Síðasti leikur Esju var gegn Birninum fyrir viku síðan en þar höfðu Bjarnarmenn sigur og því nokkuð víst að leikmenn Esju munu mæta ákveðnir til leiks.

Síðari leikur kvöldsins er leikur Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur og fer hann fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.45. Bjarnarmenn hafa átt góðu gengi að fagna í undanförnum leikjum en liðið hefur náð sér í átta stig af níu mögulegum í síðustu þremur leikjum sínum. SR-ingar hafa á hinn bóginn átt erfitt uppdráttar en liðið hefur hlotið eitt stig í fimm leikjum. Flest allir leikmenn beggja liða eru heilir.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH