Leikir kvöldsins

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Leikir kvöldsins að þessu sinni eru tveir og báðir í meistaraflokki karla. Fyrri leikurinn hefst klukkan 19.30 á Akureyri en þar mætast SA Víkingar og Björninn. Skömmu síðar eða klukkan 20.00 mætast síðan í Laugardalnum SR og UMFK Esja.

Á Akureyri má segja að um sex stiga leik sé að ræða því liðin eru bæði með 29 stig á toppnum en Víkingar eiga þó leik til góða. Heimaliðið á ekki góðar minningar frá síðasta leik liðanna sem Björninn vann 5 - 0 og ætla án nokkurs vafa að bæta þar úr. Björninn á hinn bóginn hefur náð stigi eða stigum úr undanförnum níu leikjum sínum og því til alls líklegir. Lítið er um forföll í liðunum en Sigurður Reynisson hefur þó verið frá í liði Víkinga og hjá Birninum eiga Edmunds Induss og Jón Árni Árnason ekki heimangengt.

Leikurinn í Laugardalnum milli SR og Esju gæti einnig verið áhugaverður. SR-ingar hafa í allan vetur reynt að vera í nágrenni við toppliðin og munu sjálfsagt reyna sitt ítrasta til að svo verði áfram. Esjan á hinn bóginn náði að landa sigri gegn SR-ingum í síðasta leik og vill að sjálfsögðu endurtaka leikinn í kvöld. Rétt einsog hjá hinum liðunum er lítið um meiðsli þannig að bæði lið ættu að geta still upp sterkum liðum í kvöld.

Mynd: Gunnar Jónatansson

HH