Leikir kvöldsins

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Leikir kvöldsins að þessu sinni eru tveir og báðir eru þeir í meistaraflokki karla. Segja má að eftir síðustu leiki hafi verið kominn hálfleikur í íslandsmóti karla því þá höfðu liðin leikið 12 leiki af þeim 24 sem þau koma til með að leika. Það styttist einnig í frí í flokknum því að eftir leiki kvöldsins eru einungis þrír leikir eftir fram að áramótum. Kemur það bæði til af prófum en einnig að landslið skipað leikmönnum 20 ára og yngri heldur til Jaca til keppni á HM.

Staðan í deildinni þegar leiknir höfðu verið tólf leikir og keppnin var hálfnuð var eftirfarandi:

SA Víkingar 24 stig
Björninn     20 stig
SR               17 stig
Esja             11 stig.

Fyrri leikur kvöldsins er leikur SA Víkinga og UMFK Esju og hefst hann klukkan 19.30 í Skautahöllinni á Akureyri. Hjá norðanmönnum er Ingþór Árnason aftur kominn á ísinn ásamt því að Jón B. Gíslason verður með en hann átti ekki heimangengt í síðasta leik en Sigurður Reynisson glímir enn við meiðsli. Gestirnir í Esju hafa verið án Matthíasar S. Sigurðssonar undanfarið og Sturla Snær Snorrason hefur einnig verið frá.

Síðari leikurinn hefst tíu mínútum síðar eða klukkan 19.40 og er leikjur Bjarnarins og SR og fer hann fram í Egilshöllinni. Þrátt fyrir að hafa misst nokkuð að mannskap fyrir veturinn hafa bæði lið verið á ágætis skriði. Aron Knútsson er enn frá í liði heimamanna og einnig Bergur Árni Einarsson og í liði gestanna er Robbie Sigurðsson fjarverandi.

Ef allt gengur að óskum ætti fyrir þá sem ekki eiga heimangengt að vera hægt að horfa á leikina á ÍHÍ TV.

Mynd: Gunnar Jónatansson.

HH