Leikir helgarinnar.

Um helgina fara fram tveir leikir í meistaraflokki karla þegar liða Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar. Leikirnir fara fram í Laugardal og er sá fyrri í kvöld klukkan 20.00 en sá síðari er á morgun og hefst klukkan 19.00. Bæði liðin mæta fullskipuð en þetta er í fyrsta skipti sem skautafélagsmenn að norðan mæta með nýja tékkann, Jakub Koci, hingað suður. Í fyrri leik Skautafélags Akureyrar gegn Birninum um síðustu helgi fór hann ásamt Tomas Fiala mikinn en samanlagt skoruðu þeir fjögur mörk í leiknum og áttu sjö stoðsendingar. Einnig hefur Ómar Smári Skúlason markvörður þeirra norðanmanna verið að bæta jafnt og þétt við sig allt þetta ár og í sumum leikjum verið þröskuldurinn sem andstæðingarnir hafa ekki komist yfir. Hjá SR-ingum hefur markvörður þeirra verið að stíga upp úr meiðslum í baki og einnig hefur Martin Soucek verið að jafna sig af hnémeiðslum. Bæði lið mæta því með fullmönnuð lið og því hægt að lofa spennandi leikjum.

Í þriðja flokki er svo verið að leika bæði laugardag og sunnudag en dagskrá þess móts má sjá hér.

HH