Leikir helgarinnar.

Um helgina geta íshokkíunnendur átt von á góðri skemmtun. SA-menn munu mæta með lið sín í meistaraflokki og þriðja flokki suður yfir heiðar og etja kappi við Bjarnarmenn á laugardeginum. Meistaraflokksleikurinn hefst klukkan 19.00 og leikur 3ja flokksins strax að honum loknum og fara leikirnir fram í Egilshöll. Í síðasta leik liðanna sem fór fram fyrir norðan gerðu Bjarnarmenn sér lítið fyrir og unnu norðanmenn á þeirra heimavelli með sex mörkum gegn fjórum. Eitthvað er um að brottfall úr báðum liðum, Þórhallur Þór Alfreðsson er í leikbanni í liði Bjarnarins og heyrst hefur að einhver meiðsli séu hjá SA-mönnum. Um helgina verður einnig haldið minningarmót um Magnús Finnsson en á því keppa "old boys" flokkar og má sjá dagskránna hér. Fyrir strákana sem enn koma til greina í U18 landsliðið er líka spennandi helgi framundan því að um þessa helgi fer fram síðustu æfingabúðir liðsins áður en haldið verður til Bejing í Kína. Hópurinn samanstendur af 25 strákum einsog er en strax á sunnudagskvöld verður fækkað um fimm leikmenn og endanlegur listi tilkynntur. Fyrir þá sem valdir verða er um spennandi ferðalag að ræða enda ekki á hverjum degi sem strákar á þessum aldri taka sig upp og halda til lands sem er nokkurn veginn hinumeginn á hnettinum. Semsagt spennandi helgi framundan hjá íshokkífólki.

HH