Leikir helgarinnar.

Um helgina fara fram tveir leikir í meistarflokki og fara þeir báðir fram á laugardeginum. Annarsvegar mætast lið SA og Bjarnarins í meistarflokki karla og hinsvegar sömu lið í meistaraflokki kvenna, báðir leikirnir fara fram í skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn hjá körlunum hefst klukkan 17.30 og leikurinn hjá konunum strax á eftir karlaleiknum. Bæði liðin í karlaflokknum hafa á síðustu dögum verið að sækja um leikheimild fyrir erlenda leikmenn í von um að styrkja sig en ekki er enn vitað hvort leikheimildir fyrir þá berast í tæka tíð. SA-menn sóttu um leikheimild fyrir Tékka að nafni Fiala Tomas en Bjarnarmenn hyggjast fá leikheimild fyrir Pólverja að nafni Marcin Diakow. SA-mönnum er orðin mikil nauðsyn að fara að fá fleiri stig ætli þeir sér að vera í toppbaráttunni á þessari leiktíð. Enginn þarf því að efast um að þeir muni leggja sig alla fram í fyrsta leik sínum á heimavelli þetta keppnistímabilið. Það sama má segja um Bjarnarstúlkur en þær töpuðu báðum leikjum sínum gegn SA sem fóru fram í Egilshöllinni í byrjun október.

Einnig er vert að vekja athygli á "old boys" móti sem fer fram um helgina í Egilshöll. Dagskrá mótsins ásamt fleiri upplýsingum má finna hér.

HH