Leikir helgarinnar - Brynjumót

Ef fólki þyrstir í íshokkí þá er Akureyri rétti staðurinn til að vera á um komandi helgi. SA og Björninn munu leika bæði í meistaraflokki kvenna og karla á laugardeginum. Leikur karlanna hefst klukkan 19:15 og strax að honum loknum hefst leikur kvennanna. Karlalið Bjarnarins mun verða eitthvað vængbrotið í þessum leik enda fengu þrír leikmenn dæmt á sig leikbann eftir síðasta leik. Björninn hefur hinsvegar sýnt það í leikjum 2. flokks að þeir eiga efnilegan mannskap svo þeir ættu ekki að vera í vandræðum með að fylla í skörðin. SA-menn hinsvegar hafa verið að sýna það í síðustu leikjum að þeir ætla sér stóra hluti þetta árið. Bæði hefur breiddin hjá þeim aukist en einnig hafa yngri leikmenn verið að sýna miklar framfarir einsog sést hefur í síðustu leikjum hjá liðinu. Kvennaleikurinn fer einsog áður sagði fram strax eftir að karlaleiknum líkur. SA-stúlkur hafa verið að sýna mátt sinn og meginn í síðustu leikjum og því kominn tími á fyrir Bjarnarstúlkur að sýna hvað í þeim býr. Margar þessara stúlkna voru í æfingabúðum landsliðsins um síðustu helgi og nú þegar er ÍHÍ farið að undirbúa ferð þeirra á heimsmeistaramót í Rúmeníu sem haldið verður seinnihlutann í mars á næsta ári.

Síðast en ekki síst verður svo Brynjumótið haldið um helgina á Akureyri. Þar mun framtíð íslands í íshokkí keppa á svellinu og vonandi koma foreldrar jafnt sem leikmenn til með að hafa gaman af. Dagskrá Brynjumótsins má finna hérna

HH