Leikið til úrslita á morgun

Á morgun mætast Ísland og Eistland í úrslitaviðureign um sigurinn í þessari forkeppni sem veita mun réttinn til þátttöku í næstu úrtöku sem fram mun fara á næsta ári. Eistarnir eru sterkir og eru fyrirfram taldir sigurstranglegri. Eistar eru í 28. sæti á heimslistanum á meðan við erum í 34. sæti og einnig spila þeir í deildinni fyrir ofan okkur. Fyrir þeim erum við hins vegar sýnd veiði en ekki gefin og ljóst að viðureign morgundagsins verður hörð.

Bæði lið hafa unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu og bæði lið hafa átt sveiflukennda frammistöðu. Eistar völtuðu yfir Búlgaríu í fyrsta leik en lentu í óvæntri mótstöðu gegn Suður Afríku, en unnu engu að síður sannfærandi sigur. Ísland vann nokkuð öruggan sigur á móti Suður Afríku en rétt marði Búlgaríu í háspennuleik í gær.

Fyrri leikur morgundagsins verður á milli Búlgaríu og Suður Afríku og þar má einni búast við hörku viðueign og erfitt að spá fyrir um úrslitin.  Leikur Íslands og Eistlands hefst svo kl. 17:00 og þá vonumst við eftir fullu húsi og góðum stuðningi við strákana okkar - ÁFRAM ÍSLAND!