Leik Bjarnarins og SR er lokið með sigri SR 3-5

Meira um leikinn hér síðar í kvöld við erum komin í samband við serverinn okkar þannig að nú er verið að setja leikinn inn í útsendingarkerfið samkvæmt leikskýrslu.

Sá sem þetta skrifar náði ekki að sjá fyrsta leikhluta en samkvæmt lýsingum þeirra sem á horfðu voru SRingar mun ákafari við við mark Bjarnarins í upphafi og lá mark í loftinu þeim megin, en enn á ný sýndi Alexi markvörur Bjarnarins stórbrotna takta í markinu. Björninn nær síðan forystu í 1. leikhluta á 10 mínútu með marki Mathias Nordin eftir stoðsendingar frá Guðmundi Borgari Ingólfssyni og Segei Zak þegar þeir voru einum fleiri (Power Play). Það var síðan á 16 mínútu sem að SR jafnaði leikinn með marki sem að Andy Luhovy skoraði án stoðsendingar þegar SR lék einum fleiri (Power Play). Þannig var staðan eftir 1. leikhluta var 1-1 nokkuð gegn gangi leiksins en í þessum leikhluta áttu SRingar 18 skot á mark en Björninn 4.

Rétt er hér að taka fram fyrir þá sem ekki þekkja leikinn vel að skot á mark er einungis talið þegar markmaður ver skot sem að öðrum kosti hefði gefið mark. Stangarskot eða skot sem hugsanlega hefðu farið rétt framhjá eru ekki talin með.

Í 2. leikhluta hélt darraðardans SRinga áfram, en aftur nokkuð gegn gangi leiksins voru Bjarnarmenn fyrri til þess að skora. Á 27 mínútu skoraði Matthias Nordin sitt annað mark eftir aðra stoðsendingu frá Guðmundi Borgari Ingólfssyni og enn á ný sáu áhorfendur (Power Play) mark. Ljóst var hér að hvorugt liðið hafði efni á því að spila fáliðað. Bæði liðin höfðu lag á því að færa sér í nyt liðsmuninn. Á 30. mínútu jöfnuðu síðan SRingar leikinn með marki frá Stefáni Hrafnssyni eftir stoðsendingu frá Gauta Þormóðssyni og Kára Valssyni. Leikurinn var í járnum og þrátt fyrir að hallaði nokkuð á Bjarnarmenn vörðust þeir vel með Alexi markvörð sinn í broddi fylkingar. Það var síðan á 36. mínútu sem að Stefán Hrafnsson skoraði mark eftir stoðsendingu frá Árna Valda Bernhöft og Andy Luhovy sem að SRingar náðu yfirhöndinni á leiknum, enn á ný var um (Power Play) mark að ræða. Staðan eftir 2. leikhluta 2-3, Björninn með 3 skot á mark en SR 27.

Í 3. leikhluta var mesti móðurinn af SRingum og nokkuð virtist dregið af þeim, svona eins og þeir væru búnir að viðurkenna að Alexi markvörður Bjarnarins væri fyrir framan þá eins og ókleyft fjall. Þeir bættu við sínu 4 marki á 42. mínútu og enn á ný var það Stefán Hrafnsson sem að fann leiðina inn hjá Alexi markverði Bjarnarins nú eftir stoðsendingu frá Zednik Prohazka enn eitt (Power Play) markið. Stefán var í essinu sínu í kvöld en hann skoraði 4 mark sitt á 47. mínútu og í þetta sinn eftir stoðsendingu frá Mirek Krivanek. Á 48. mínútu átti síðan Magnús Felix Tryggvason mark fyrir Björninn án stoðsendingar. Í þessum leikhluta náðu Bjarnarmenn 4 skotum á mark en SR 13. Staðan í leikslok því 3-5 Sringum í vil.

SR hafði nokkra yfirburði í þessum leik eins og kannski sést best á þeim tækifærum sem þeir fengu til þess að skora. Bjarnarliðið átti nokkuð í vök að verjast enda vantaði í liðið tvo þeirra beyttustu sóknarmenn, þá Brynjar F. Þórðarson sem að er að taka út leikbann og Hrólf Gíslason sem er á sjúkralista. En ekki er nokkur vafi á því að maður leiksins er Alexi Ala-Lathi markvörður Bjarnarins sem að sýndi stjörnu takta í marki Bjarnarins, fékk á sig 58 skot og varði 53 aldeilis frábær frammistaða. Í liði SR var besti maður liðsins Stefán Hrafnsson sem af öyggi skilaði félaginu 4 mörkum og var sá eini sem virtist rata fram hjá finska múrnum í bjarnar markinu.

Leikurinn var annars drengilega leikinn af báðum liðum og öllum til sóma. 

Lyfjanefnd ÍSÍ mætti á leikinn og tók nokkra leikmenn í lyfjapróf, þeir sem voru prófaðir voru: Sindri Már Björnsson, Árni Valdi Bernhöft, Jón Trausti Guðmundsson, Magnús Felix Tryggvason, Guðmundur Borgar Ingólfsson, Matthias Nordin og Brynjar Freyr Þórðarsson sem var á meðal áhorfenda.

Leikurinn í tölum:

Mörk / stoðsendingar Bjarnarins: #77 Matthias Nordin 2/0, #23 Magnús Felix Tryggvason 1/0, Guðmundur Borgar Ingólfsson 0/2, #24 Sergei Zak 0/1.

Mörk / stoðsendingar SR: #14 Stefán Hrafnsson 4/0, #22 Andy Luhovy 1/1, #10 Gauti Þormóðsson 0/1, #9 Árni Valdi Bernhöft 0/1, #25 Zednik Prohazka 0/1, #14 Mirek Krivanek 0/1, #2 Kári Valsson 0/1.

Refsingar Bjarnarins: 8x2 mínútur

Refsingar SR: 4x2 mínútur + 1x10 mínútur persónulegur dómur á Árna Valda Bernhöft.

Skot á mark Björninn: 11 skot á mark sem að gáfu 3 mörk eða 27,27% hlutfall.

Skot á mark SR: 58 skot á mark sem að gáfu 5 mörk eða 8,62% hlutfall.

Dómari leiksins var Snorri Gunnar Sigurðarson.