Landsliðsþjálfarar

Gengið hefur verið frá hvaða þjálfarar koma til með að þjálfa karlalandslið Íslands ásamt landsliði skipað leikmönnum 20 ára og yngri.

Dave MacIsacc hefur verið ráðinn sem þjálfari karlalandsliðs Íslands í íshokkí. Dave er fæddur árið 1972 og útskrifaðist frá Háskólanum í Main í íþróttafræðum með kennslu og þjálfun sem aðal greinar. Dave hefur margra ára reynslu við þjálfun og nú síðast þjálfaði hann Louisiana Ice Gators í SPHL deildinni (Southern Professional Hockey League). Árin 2004 og 2005 stjórnaði hann þróun starfs yngri flokka Philadelphia Flyers.
Á leikmannaferlinum lék hann sem fyrirliði Háskólans í Main og varð NCAA National Champion. Dave lék í átta ár í AHL deildinni  og var fyrirliði meðal annars hjá  Philadelphia Phantoms. Árið 2001 var hann valinn Player of the Year í AHL deildinni.  Einnig hefur hann leikið í Rússlandi og á Ítalíu. Dave hóf að þjálfa hjá Birninum á síðastliðnu keppnistímabili og undir hans stjórn vann félagið íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki karla.

 

Hannu-Pekka Hyttinen hefur verið ráðinn þjálfari U20 ára landsliðs Íslands í íshokkí.  Hannu-Pekka er 28 ára gamall og hefur mikla reynslu, bæði sem þjálfari og leikmaður í íshokkí. Sjálfur er hann fyrrum markmaður og hefur hann komið að íshokkíþjálfun á öllum stigum, allt frá þjálfun barna til atvinnumanna í sportinu. Undanfarin ár hefur hann stundað nám í Íþrótta og þjálfunarfræðum við íþróttaháskólann í Vierumäki í Finnlandi. Námið þar er innan IIHF Ice Hocky Centre of Excellence, sem er samvinnuverkefni Alþjóða íshokkísambandsins, finnska Íshokkísambandsins og Vierumäki háskólans og er sérhæft nám í íshokkíþjálfun.
Tilkynnt verður fljótlega hver mun taka að sér þjálfun kvennalandsliðs og landsliðs skipað leikmönnum 18 ára og yngri.

HH