Landsliðsæfingu kvenna frestað

Æfingu kvennalandsliðsins sem fram átti að fara um helgina hefur verið frestað fram í október.  Nánari tímasetning á æfingabúðunum verður auglýst síðar.  Enn er ekki ljóst hvar eða hvort íslenska landsliðið keppir á komandi tímabili því enn vantar gestgjafa á 3. deildina.  Ísland kemur til með að spila (ef af verður) í 4. deild og nú þegar hafa Rúmenar boðist til að halda keppnina.  Hins vegar hefur Alþjóða íshokkísambandið (IIHF) gefið það út að keppni fari ekki fram í 4. deild nema keppt verði í 3. deild, en engin aðildarþjóð hefur enn lýst yfir vilja sínum til að halda mótið.  Haustþing IIHF verður haldið í lok þessa mánaðar og verður málið til lykta leitt á þinginu.
 
Vandamálið helgast af því að styrkur IIHF til gestgjafa heimsmeistaramóts kvenna þykir svo lítill að það svarar ekki kostnaði að halda slíkt mót og í raun er yfirvofandi tap af hverri keppni, a.m.k. ef vestrænar þjóðir vilja halda mótið.  Rétt er að geta þess að styrkupphæð IIHF vegna kvennakeppninnar er aðeins helmingur af þeirri upphæð sem greitt er til gestgjafa karlakeppni í sömu deild.  Það er því óhætt að segja að ferskir vindar jafnréttis blása ekki um stjórn Alþjóða íshokkísambandsins.