Landsliðið komið saman

Í gær var fyrsta æfing landsliðsins með fullskipað lið.  Þeir Jónas Breki og Ingvar komu frá Danmörku og þeir Daníel og Patrik Eriksson og Emil Alengard frá Svíþjóð.  Sjaldan ef nokkurn tíma hefur liðið verið eins sterkt og nú er úr vöndu að ráð fyrir þjálfara liðsins hvernig best er að raða saman línum.  Á æfingunni gær voru saman í framlínu t.d. Emil, Gauti og Rúnar sem þykir skemmtileg blanda af tveimur léttum og liprum leikmönnum og Lurknum sjálfum.  Önnur framlína var svo með Norðlendingunum Jóni Gísla, Stefáni Hrafnssyni og Jóni Inga Hallgrímssyni en einnig var prófað að hafa Daniel Eriksson með Jóni og Stebba.  Samspil þeirra tveggja síðastnefndu er fyrir löngu orðið frægt en þeir spiluðu saman upp alla yngri flokkana og nánast frá upphafi í landsliðunum.  Jónas Breki, Brynjar og Úlfar voru saman í línu en einnig var Jón Ingi með Binna og Jónasi og ljóst að þarna eru nokkrar hraðlestir komnar saman.  Svo hefur Patrik rokkað á milli sóknar og varnar og m.a. verið í framlínu með Daða.
 
Varnarpörin voru svo þeir Ingvar Þór og Þórhallur Viðarsson, Björn Már og Guðmundur Borgar, og Birkir Árna og Guðmundur Björgvinsson en líkt og áður sagði þá er Patrik einnig líklegur til að spila vörn.  Það er önnur æfing í kvöld og líkast til gera þjálfarar einhverjar breytingar á línusamsetningum fyrir fyrsta leik sem verður á morgun.
 
Fyrirliði liðsins er Ingvar Þór Jónsson og A-in bera Guðmundur Borgar og Rúnar Rúnarsson.