Landslið kvenna fékk silfurverðlaunin á heimsmeistaramótinu á Akureyri

Kvennalandslið Íslands 2020, myndataka Elvar Freyr Pálsson
Kvennalandslið Íslands 2020, myndataka Elvar Freyr Pálsson

Heimsmeistaramót kvenna í 2. deild B var haldið á Akureyri í síðustu viku. Landslið kvenna uppskar annað sætið og fékk því silfurverðlaun. Ástralar unnu mótið og Nýja Sjáland endaði í þriðja sæti. Aðrar þátttökuþjóðir voru Úkraína, Króatía og Tyrkland. 

Íshokkísamband Íslands vill þakka Skautafélagi Akureyrar innilega fyrir að vera framkvæmdaraðili mótsins. Án allra sjálfboðaliðanna hefði þetta aldrei verið hægt. Stórkostleg sjálfboðavinna félagsins, með tugi manna og kvenna, skilaði okkur frábærri umgjörð og stórglæsilegu móti.

Áhorfendur voru um 400 á hverjum leik íslenska liðsins, mikil stemning í Skautahöllinni á Akureyri og ánægjulegt að sjá þann áhuga sem mótið vakti.

Það eru margir aðilar sem koma að svona framkvæmd og mótshaldi og vill Íshokkísamband Íslands þakka öllum þeim sem hjálpuðu til. Vetraríþróttamiðstöð Íslands studdi mótið með veglegum hætti, einnig Akureyrarbær, Samherji, Hertz bílaleiga og VITA ferðaskrifstofa. Hótel Kea, Hótel Norðurland og Hótel Sveinbjarnargerði sáu um gistingu allra þátttakenda. Veitingahúsið Bautinn sá um fæði fyrir alla þátttakendur og Vitinn Mathús sá um hátíðargesti. Reynir Sigurðsson hjá Ferðabílum Akureyrar var dag og nótt í að ferja þátttakendur fram og til baka milli Keflavíkur og Akureyrar og svo var það Preben sjálfur hjá Grand Þvotti ehf sem þvoði allar treyjur þátttakenda.

Afrekssjóður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands  á heiður skilinn fyrir framlag til afreksmála Íshokkísambands Íslands. Íslensk Getspá er einn aðal stuðningsaðili íþróttafélaga og sambanda á Íslandi og er einn stærsti bakhjarl íþrótta á Íslandi og þar með íshokkí.

Takk fyrir okkur.

Íshokkísamband Íslands.