Kvennamót - viðbót

Fyrsta opna kvennamótinu hér á landi lauk á laugardag. Lið sem skráð voru til keppni voru fjögur en flensan herjaði á íshokkíkonur sem aðra landsmenn og einungis þrjú lið spiluðu mótið. Það voru lið Snakes, Eagles og Hawks eða Snákar, Ernir og Haukar á okkar ylhýra. Spilaðir voru tveir leikir á föstudagskvöldi og þrír á laugardagsmorgni og síðan var úrslitaleikur mótsins seinnipart laugardags. Liðin voru blönduð leikmönnum úr íshokkífélögunum okkar þremur, Birninum, SA og SR en gaman var að sjá margar stelpur og konur frá SR sem hingað til hefur einungis einu sinni verið með á Íslandsmóti. Vonandi er þetta merki um að þriðja liðið sé væntanlegt í kvennadeildina á næstu misserum. Einnig var gaman að sjá 12 ára stelpur takast á við konur á "besta aldri" en bilið á milli elsta og yngsta var líklega um 20-25 ár. Sigurvegarar mótsins var lið Snákanna sem unnu alla sína leiki, í þeirra liði var Kristín Ingadóttir valin besti leikmaðurinn. Í öðru sæti voru Ernirnir þar sem Bergþóra Bergþórsdóttir var valin besti leikmaðurinn og í þriðja sæti voru Haukar þar sem Diljá Sif Björgvinsdóttir fékk verðlaun sem besti leikmaður liðsins. Allt eru þetta ungir leikmenn sem eru að koma gríðarlega sterkir inn og fara að banka á landsliðsdyrnar á næstu árum. Mótið tókst mjög vel og heyrst hefur frá leikmönnum að spenna sé strax farin að byggjast upp fyrir öðru móti sem verður vonandi haldið á Akureyri eftir áramót. Liðin í Reykjavík eru strax farin að skipuleggja æfingaleiki hjá byrjendum og það er ósk okkar að enn fleiri stelpur og konur á öllum aldri taki sér kylfu í hönd og prófi íshokkí.

Myndina tók Óli Kristinn

SES