Kvennamót á Akureyri

Annað kvennamót vetrarins fór fram á Akureyri í gær laugardag, þar sem saman voru komnar um 50 íshokkíkonur frá SA, SR og Birninum sem spiluðu í þremur nýjum liðum sem sett voru saman af þessu tilefni.  Liðin hétu Svörtu Snákarnir, Hvítu Hákarlarnir og Rauðu Tígrarnir og var hvert lið skipað þremur línum og voru línur settar eftir getustigi leikmanna.

Í leikjunum mættust svo ávallt línur af sama styrkleika sem gerði leikina og mótið allt mjög jafnt og skemmtilegt fyrir alla leikmenn þrátt fyrir töluverðan getumun á milli leikmanna.   Hefur þetta leikfyrirkomulag mælst vel fyrir í mótum sem þessum og hentar vel þegar keppendur eru bæði úr hópi byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir.

Íshokkíkonum hefur fjölgað mikið á undanförnum misserum og nú standa vonir til þess að Skautafélag Reykjavíkur tefli fram liði í Íslandsmótinu á næsta ári og ef SA teflir aftur fram tveimur liðum stefnir í fjögurra liða deild á næsta tímabili.

Meðfylgjandi mynd er af liði Svörtu Snákanna sem urðu sigurvegarar mótsins.