Kvennaliðið lýkur keppni

Þá hefur íslenska kvennalandsliðið í  íshokkí lokið sínu fyrsta heimsmeistaramóti.  Síðasti leikurinn fór fram síðustu nótt að íslenskum tíma og var hann gegn heimaliðinu Nýja-Sjálandi.  Gestgjafarnir fóru af stað af miklum krafti og skoruðu snemma tvö mörk og útlitið var ekki bjart.  Staðan var 2 - 0 eftir 1. lotu.  Í 2. lotu skoraði Patty Ryan fyrir íslenska liðið og minnkaði muninn í 2-1 en þær erlendu bættu við þriðja markinu fyrir lok lotunnar.  Í þriðja leikhluta  var svo komið að þætti Sigrúnar Agöthu sem  gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk og kom íslenska liðinu yfir 4 - 3. 
 
Gríðarleg spenna myndaðist í húsinu og allt stefndi í sigur íslenska liðsins.  Á lokamínútunni tóku þær nýsjálensku markmanninn sinn úr markinu og bættu við leikmanni í sóknina og tókst með undraverðum hætti að jafna leikinn á síðustu sekúndunni.  Íslenska liðið var ekki sátt við þetta mark því svo virtist sem tíminn hafi verið liðinn þegar pökkurinn fór yfir marklínuna.  Engu tauti var þó komið við dómarana og jafntefli því niðurstaðan.   Í lok móts var markmaðurinn Gyða Björg Sigurðardóttir valin besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu og var hún vel að þeim titli komin eftir  frábæra frammistöðu í leikjunum þremur.
 
Þar með hefur liðið lokið keppni að þessu  sinni.  Þrátt fyrir að hafa lent í neðsta sæti er liðið reynslunni ríkara og allir geta verið stoltir af sinni frammistöðu.  Leikirnir voru jafnir og með smá heppni hefði sigur unnist í tveimur af þessum þremur leikjum.  Í hópnum er mjög góður andi, allir heilir og með dýrmæta reynslu í reynslubankanum eftir þessa för.  Nú tekur við langt ferðalag í orðisins fyllstu merkingu yfir hálfan hnöttinn.  Kær kveðja frá Nýja Sjálandi.