Heimsmeistarakeppni kvenna senn að hefjast

Nú styttist óðum í Heimsmeistarakeppni kvenna sem að þessu sinni fer fram hér á Íslandi dagana 27. mars til 2. apríl næst komandi, en þetta er í fyrsta skiptið sem Heimsmeistaramót kvenna er haldið hér á landi.  Þetta mun vera í fjórða skiptið sem Ísland teflir fram liði á heimsmeistaramóti kvenna en að þessu sinni keppir liðið í 4. deild. 

Ísland tefldi fyrst fram landsliði á HM í Nýja-Sjálandi árið 2005 undir stjórn Sveins Björnssonar en þá lenti liðið í neðsta sæti eftir að hafa tapað öllum leikjum nema einum, en liðið náði jafntefli gegn Nýja Sjálandi.
Árið eftir var Ólympíuár og því var engin keppni, en ári síðar þ.e. 2007 hélt liðið til Rúmeníu og þá var Sarah Smiley tekin við þjálfarastöðunni.  Liðið bætti árangur sinn lítillega, vann þó aðeins einn leik, sinn fyrsta sigur á heimsmeistaramóti þegar það lagði Tyrkland að velli.

Árið 2008 var aftur haldið til Rúmeníu og þá kom liðið verulega á óvart og vann alla leikina á mótinu og vann sig upp um deild.  Liðið lagði þar m.a. að velli þjóðir sem það hafði tapað stórt fyrir árið áður.  Breytingin á liðinu var með ólíkindum og árangurinn vakti mikla athygli.  Liðinu beið það krefjandi verkefni að takast á við sterkari þjóðir í 3. deild að ári en því miður varð ekkert af því móti því ekkert land fékkst til að halda keppnina árið 2009.  Það kom til vegna þess að Alþjóða íshokkísambandið veitir helmingi lægri styrki til mótshaldara kvennamóta en karlamóta og af þeim sökum sá ekkert land sér fært að standa undir rekstri mótsins.  Árið 2010 var svo aftur Ólympíuár og því engin keppni það árið heldur.

Vegna klúðursins 2009 og einhverra skipulagsbreytinga var því íslenska liðið aftur komið í 4. deild en stefnan er tekin á að komast sem fyrst uppúr henni en til þess þarf liðið að vinna komandi mót.   Mótherjar liðsins eru að þessu sinni S-Kórea, S-Afríka, Nýja Sjáland og Rúmenía.  Eistland átti einnig að mæta til leiks en dró sig úr keppni í haust.  Ísland hefur lagt allar þessar þjóðir að velli nema S-Kóreu en liðin gerðu jafntefli árið 2005 eins og áður sagði.
Töluverð endurnýjun hefur orðið á leikmannahópnum síðan í síðustu keppni en alls eru 7 nýliðar í liðnu, en liðið telur í heildina 20 leikmenn, 18 útispilara og 2 markmenn.
Leikmenn liðsins má sjá hér í næsta dálki undir liðnum leikmenn en Sarah Smiley og Helgi Páll Þórisson völdu endanlegan hóp nú fyrir skömmu. 
 
Hægt verður að fylgjast með kynningum á liðsmönnum á Hokkípressunni: http://www.pressan.is/hokkipressan