Þriðji leikdagur

Í nótt og aðeins í dag snjóaði hér í Miercurea Ciuc svo að við íslendingarnir erum rétt eins og heima hjá okkur.  Fyrir Suður Afrísku stúlkurnar er þetta mikil upplifun, sumar að sjá snjó í fyrsta sinn á æfinni. Mögulegt er að þetta hafi truflað einbeitinguna hjá þeim því við unnum þær 9-1 fyrr í dag. Suður Afríka lenti í neðsta sæti í þriðju deild á síðasta ári og féll þar að leiðandi í fjórðu. Þær komu til þessarar keppni sigurvissar en hafa vanmetið getustig andastæðinganna því þær hafa tapað öllum sínum leikjum til þessa. Við munum fylgjast spenntar með leiknum í kvöld á milli Eista og Nýja Sjálands en þau tvö lið eru taplaus eins og íslenska liðið og eru þeir andstæðingar sem við eigum eftir að keppa við.
 
Sarah súperþjálfari er mjög dugleg að halda stelpunum við efnið með æfingum, fundum og ýmissi undirbúningsvinnu. Þá er verið að vinna bæði í andlegum og líkamlegum undirbúningi. Eitt af verkefnunum hefur t.d. verið að þær drógu út nafn á öðrum leikmanni í liðinu sem varð þeirra leynivinur og áttu þær að gera eitthvað jákvætt og gott fyrir sinn leynivin. Þetta hefur komið mjög skemmtilega út og stelpurnar verið að fá litlar og oft skondnar gjafir og velgjörning. Líkamlega ástandið á liðinu er nokkuð gott miðað við álagið og átökin og stelpurnar eru duglegar að leita til Söndru sem hugsar sérstaklega vel um sína skjólstæðinga. Gestgjafarnir hér hafa staðið sig ágætlega og ekki yfir neinu að kvarta í aðbúnaði eða framgangi keppninnar.
 
Fjölmiðlar hér í Rúmeníu hafa sýnt keppninni talsverðan áhuga. Öllum leikjum er t.d. sjónvarpað beint og fulltrúar Íslands hafa tekið þátt í viðtölum og viðtalsþáttum um keppnina í beinni útsendingu. Er það skemmtileg viðbót við dagskrána og mun vonandi verða kvennahokkíi til framdráttar.