Keppnisdagur 2

Stúlkurnar voru mismikið þreyttar en glaðar í morgunmat í morgun en langflestar höfðu sofið vel eftir erfiðan dag í gær. Eins og fram hefur komið þá unnum við Rúmensku stelpurnar í geysispennandi leik. Allar lögðu sig 100% fram, spiluðu vel saman og skemmtu sér á svellinu og skilaði það þessum ánægjulegu úrslitum. Hrund átti frábæran leik, skoraði tvö mörk og var kosin maður íslenska liðsins. Var mjög gaman að því að fylgjast með henni fagna því það var gert vel og innilega og naut hún greinilega þessa góða árangurs. Það er líka gaman að segja frá því að Guðrún var búin að spá þessum úrslitum og tala um þau í meira en mánuð.
Æfingin í morgun gekk ágætlega og nú tveimur tímum fyrir næsta leik eru stelpurnar farnar að tínast út í höll að undirbúa sig. Eitthvað er um smámeiðsl eins og við er að búast en Sandra hugsar undurvel um liðið sitt og eru allar leikhæfar. Tyrknesku stúlkunum hefur farið eitthvað fram frá í fyrra en það hefur okkar stelpum líka svo við eigum ekki von á að þurfa að sýna vígtennurnar mikið á eftir.