Líður að mótslokum

Nú er orðið ljóst að íslenska liðið verður ekki í verðlaunasæti þetta árið, Króatía er komin með gullið og á morgun skýrist hvort Nýja Sjáland eða Rúmenía lenda í öðru eða þriðja sæti. Tyrkland er bókað í neðsta sætið og restin skýrist á morgun. Okkar lið hefur verið í stöðugri framför með hverjum leik og nær öruggt að ef að þær hefðu fengið meiri æfingu fyrir mótið þá væri staðan önnur og betri. Í dag var æfing kl.13 en að öðru leyti er frídagur og liðið að safna kröftum fyrir morgundaginn. Stelpurnar stefna einbeittar að því að klára mótið með sigri á Eistum og svo tekur við löng og erfið heimferð. Ferðin hefur verið mjög lærdómsrík fyrir alla þátttakendur, ekki án hnökra en stóráfallalaus.  Stelpurnar hafa barist hetjulega á svellinu og sannanlega verið landi og þjóð til sóma með glaðlegri og prúðmannlegri framkomu.