Kvennaflokkur SA - Björninn; 3 - 2

SA og Björninn mættust í annarri viðureign sinni á tímabilinu á Akureyri í gærkvöldið.  Björninn vann fyrsta leik íslandsmótsins 5 - 1 sem fram fór í Reykjavík í október.  Þessi leikur var jafn og spennandi frá upphafi til enda og fóru loturnar 1 - 0, 1 - 1 og 1 - 1.   
Fyrsta mark leiksins og eina mark lotunnar kom strax á 1. mínútu leiksins en þar var að verki Sarah Smiley spilandi þjálfari SA.  Í 2. lotu jók Jónína Guðbjartsdóttir muninn fyrir SA með góðu langskoti en Steinunn Sigurgeirsdóttir minnkaði muninn fyrir Björninn skömmu síðar.  Staðan var því 2 - 1 fyrir SA þegar 3. lota hófst.  
Guðrún Blöndal jók forystuna fyrir SA um miðbik 3. lotu og Steinunn skoraði aftur fyrir Björninn skömmu síðar eftir sendingu frá Ingibjörgu Hjartardóttur, og hélt sínu liði inni í leiknum.  Hvorugu liðinu tókst að skora sem eftir lifði lotunnar og því lokastaðan 3 - 2 fyrir SA.  
Á þessum fyrstu tveimur leikjum Íslandsmótins má sjá að jafnræði er með liðunum og því má gera ráð fyrir spennandi viðureignum í vetur.   Myndina tók Ásgrímur Ágústsson