Króatía 1. hluti

Að mörgu leyti hefur dvölin hér í Zagreb verið tíðindalítil og ferðin er komin í nokkuð fastar skorður. Þær einkennast mest af matartímum, æfingum, leikjum og afslappelsi þess á milli. Aðbúnaðurinn er fínn og eins og áður hefur komið fram er einungis fimm mínútna labb í höllina. Það gerir alla hluti miklu auðveldari því ekki þarf að bíða í umferðarflækjum eða eftir rútum.
Oftast í þessum ferðum er það maturinn sem vill verða tilefni umræðu. Bæði hafa menn skoðanir á hvernig hann er eldaður og ekki síður hversu mikið magn er í boði. Að þessu sinni hefur tekist ágætlega til. Í það minnsta fá Króatar hærri einkunn heldur en þjóðin sem karlalandsliðið heimsótti síðast.

Leikjunum hafa verið gerð góð skil á mbl.is og kanski ekki miklu þar við að bæta en leiknum lauk með sigri Króata sem gerðu 8 mörk gegn engu marki okkar liðs. Segja má að liðið hafi ekki átt góðan dag á móti Króötum en hafa verður þó í huga að þeir eru það lið sem komu niður úr 1. deild á síðasta tímabili og ættu því að vera með sterkasta liðið.  Tíðar ferðir íslenska liðsins í refsiboxið gerðu liðinu erfitt fyrir sérstaklega þar sem Króatarnir náðu að nýta sér það mjög vel. Kristján Maack var að sjálfsögðu á staðnum og hér má sjá myndir úr leiknum. Viðtal við Ingvar Þór Jónsson má síðan sjá hér. Maður leiksins var valinn Daniel Aedel.


Leikurinn daginn eftir var gegn Rúmenum. Á síðasta móti, sem fram fór í Eistlandi í fyrra, mættum við þeim einnig  og þá lögðu þeir okkur með átta mörkum gegn þremur.  Í þetta sinnið þurftu Rúmenar að hafa öllu meira fyrir hlutunum en leiknum lauk með sigri rúmena sem gerður 4 mörk gegn 2 mörkum íslenska liðsins. Íslenska liðið átti þó fyrstu tvö mörk leiksins og staðan var orðin ansi vænleg því rúmenarnir voru orðnir pirraðir inn á ísnum. Íslenska liðið fékk síðan, um miðjan leik á sig mark, þegar það var einum fleiri á vellinum og segja má að það hafi verið nokkur vendipunktur í leiknum. Kristján var að sjálfsögðu mættur til að smella af og afraksturinn má sjá hér. Þeir Sigurður S. Sigurðsson og Egill Þormóðsson sögðu síðan skoðun sína á leiknum. Maður leiksins var valinn Robin Hedström.

Meira síðar....

Mynd: Kristján Maack

HH