Kraftmiklir landsliðsmenn

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni kom upp sú einkennilega staða fyrir fyrsta leik landsliðsins í Ástralíu að íshefillinn gaf upp öndina á miðjum ísnum.  Þar sat hann fastur í 90 mínútur eða þar til íslensku leikmönnunum var farið að leiðast þófið og tóku málin í sínar eigin hendur.  Annar íshefill hafði verið fenginn á staðinn og reynt var að draga þann bilaða útaf með því að hengja keðju á milli ísheflanna en allt kom fyrir ekki.
 
Íslenska liðið ákvað þá að ýta heflinum og til þess að auðvelda þeim verkið ætlaði hinn íshefillinn að draga líka.  Það kom hins vegar fljótt í ljós að ekki þurftu meira vélarafl til þess að koma heflinum úr hjólförunum því svo mikill var krafturinn í strákunum að þeir ýttu þeim bilaða á fullum krafti á hinn hefilinn.  Sá var því í snarhesti losaður og strákarnir ýttu garminum alveg út úr húsinu undir dynjandi lófataki áhorfenda.  Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar hefilinn er á leið út um hliðið og strákana sem mannleg hestöfl.