Tveir fyrir einn

Einhverjar gloppur eru nú farnar að koma í dagbókina en við tökum upp þráðinn frá föstudeginum. Reyndar gerðist fátt markvert á laugardeginum. Við æfðum og spiluðum við serba en þeim leik hafa verið gerð skil annarsstaðar. Þar sem venjan er að heimalið fær alltaf síðasta leik dagsins vorum við búnir óvenjulega seint þennan daginn og farið að nálgast miðnætti þegar við komum upp á hótel í kvöldmat. Menn voru þolanlega sáttir við serbaleikinn og þá sérstaklega síðustu tvær loturnar. Þjálfarinn gaf stutt útivistarleyfi eftir kvöldmat sem einhverjir nýttu sér en allt í góðu hófi þó, enda löng og ströng æfing daginn eftir.
Sunnudagurinn byrjaði síðan með fundi hjá forráðamönnum liðanna. Þrátt fyrir að menn brosi til hvors annars finnur maður að eistarnir eru ekki alveg sáttir við framgöngu gestgjafanna og þá sérstaklega fyrir leik þessara þjóða. Æfingatími, sem eistunum hafði verið lofað við komuna til Novi Sad, fékkst ekki. Rétt einsog íslenska liðinu gekk eistunum líka erfiðlega að fá vatn og ávexti í klefann hjá sér í fyrsta leik og það skiptir að sjálfsögðu miklu máli. Fundirnir fara þó fram í mesta bróðerni undir öruggri stjórn Roman Neumayer frá IIHF sem hefur áður komið að viðburðum sem þessum. Liðið hélt síðan á æfingu uppúr klukkan eitt en á fyrrnefndum fundi hafði verið varað við fótboltaleik sem var á velli í nágrenni svellsins. Þar var um svokallaðan derbyleik að ræða milli Vojvodina og Partizan Belgrad. Litlir kærleikar munu vera milli áhagenda þessara liða og einhver íslensku drengjanna hafði á orði að löggann hefði verið langfjölmennust áhorfenda. Engin læti voru þó á meðan við höfðum þarna stans og vonandi ekki eftir á heldur. Um kvöldið bauð síðan hótelið til mikillar veislu, hljóðfæraleikarar, dansarar og matur voru m.a. á boðstólunum. Serbunum finnst voðalega gaman af svona sýningum og tekst að búa til mikinn hávaða í leiðinni. Allt fór þó vel fram og tækjastjórinn hélt sýningu á hvernig búa ætti til brjóstahaldara úr sérvéttu enda tækjastjórum margt til lista lagt. Nú fer að styttast í ferðalaginu því að í nótt verður haldið af stað heimleiðis. Við sjáum til með fleiri færslur.

Myndina tók Pétur Maack.

HH