Aðeins of stórir eistar

Með hverjum deginum sem líður færist lífið hjá íslenska liðinu í fastari skorður. Smá hlutir sem voru ekki í lagi eru komnir í lag eða í það minnsta þarf bara að biðja einu sinni og þá komast þeir í lag. Dagskráin á leikdögum er oftast svipuð og bara spurning um á hvaða tíma dags spilað er. Fyrir leikinn gegn eistum var hálftíma morgunæfingunni sleppt. Töluverður tími fer í að ferðast, hita upp, teygja og koma sér heim aftur þannig að fyrir hálftíma á ís virðist það stundum ekki vera þess virði. Einsog vanalega var vel tekið á því við matarborðið en að þessu sinni var leikurinn um miðjan dag. Þetta var fyrsti leikurinn sem íslenska liðið spilaði á þessum tíma en breytingin svosem ekki mjög mikil. Þegar við komum í höllina stóð yfir leikur Kína og Norður-Kóreu og að sjálfsögðu vorum við íslendingarnir að vonast til að N-Kórea stæli í það minnsta stigi af kínverjum. Staðan var 6 2 kínverjum í vil þegar við mættum og tvær lotur búna. Á u.þ.b. 10 mínútum tókst hinsvegar N-Kóreu að minnka muninn niður í 6 5 og menn orðnir æði spenntir. En því miður náðu kínverjarnir að setja mark og klára leikinn með sigri, 7 -5. Einn leikmaður kóreu var greinilega orðinn mjög vanbúinn kylfulega séð og sá Gauti Þormóðsson aumur á honum og gaf honum aukakylfuna sína. Leik okkar gegn eistunum eru gerð skil annarsstaðar og engu þar við að bæta. Menn verða fljótir að jafna sig af honum og einhenda sér í næsta verkefni sem eru heimamenn Serbar.

HH