Og annar góður dagur....bara með öðru sniði

Rétt einsog aðrir dagar hér í Novi Sad heilsaði Skírdagur okkur með sól og blíðu og einstaka bröndurum um hana. Þar sem æfingin var ekki fyrr en vel eftir hádegi sváfu menn lengur og sumir jafnvel í það lengsta. Þeir misstu því af morgunverðinum og fóru í svangara lagi á æfingu. Farastjórinn byrjaði reyndar daginn á fundi klukkan 9 með forsvarsmönnum mótsins en þar er farið yfir það sem búið er og það sem á eftir kemur. Á þessum fundum velja menn sér einnig lit á búninga í leikjum og á hvaða bekkjum þeir ætla að vera. Áður en haldið var á æfingu safnaðist liðið saman í litlu rjóðri við hótelið á liðsfund. Hann gekk þó ekki alveg áfallalaust fyrir sig í byrjun því Richard hafði varla hafið mál sitt þegar ökumenn tveggja smásláttuvéla hófu að slá grasið í kringum okkur þannig að lítið sem ekkert heyrðist í þjálfaranum. Sláttumennirnir áttuðu sig þó fljótt og drápu á tækjum sínum og tóku sér pásu rétt á meðan fundi stóð. Þeim var að sjálfsögðu þökkuð tillitsemin. Æfingin var um klukkustund og gekk í alla staði vel fyrir sig. Eftir síðbúin hádegismat var frjáls dagur. Partur af liðinu og fararstjórn fór upp í Petrovaradin virkið en þess má geta að Petrovaradin var nafn Novi Sad á árum áður. Labbað var um virkið og það skoðað en einnig var gott útsýni yfir borgina frá því. Endað var í kaffi og ís en síðan haldið heim á hótel. Fararstjóri hafði fyrr um daginn fengið boð um kvöldverð í boði íshokkísambands Hvíta-Rússlands. Þeir fara þessa dagana um hokkíheiminn og reyna að sannfæra hokkíþjóðir um að Hvíta-Rússland sé rétti staðurinn til að halda HM 2014. Ekki veit ég hvort þeim er ljóst að fararstjórinn fer ekki með atkvæðið og ákvörðunina, en maturinn var ágætur. Því miður verður ekki sagt það sama um matinn sem leikmenn fengu að þessu sinni, hann var reyndar í lagi en ansi naumt skammtaður. Vonandi verður hægt að kippa því í liðinn. Þeir sem hafa aðgang að Facebook síðum leikmanna sjá að þeir eru ekki verklausir í frítíma sínum. Vídeómyndir af sunddansi einhverskonar og söng prýða þær ásamt öðru sprelli. Gengið var á réttum tíma til náða því erfiður leikur er framundan á morgunn.

HH