Allt að koma

Það gafst ekki langur tími til hvíldar eftir ferðalagið á laugardeginum. Vikurnar áður en lagt hafði verið í hann höfðum við verið að reyna að fá morgunæfingu í skautahöllinni en ekkert orðið ágengt. Strax á flugvellinum héldum við áfram að spyrja en ekkert svar fékkst. Það fékkst þó þegar við komum með búnaðinn í höllina og þá líka þessi flotti æfingatími. Æft skyldi klukkan 7.30. Það þýddi ræs klukkan 06.00 og morgunmatur klukkan 06.15. Liðið sem mætti í morgunmatinn var því frekar þreytulegt, engin mynd náðist af því enda ekki hægt að ætlast til þess að einhver væri með nógu mikla rænu til að láta sér detta í hug að taka hana. Æfingin var hinsvegar ágæt, sumir leikmenn kannski svolítið þungir en menn voru að hressast þegar leið á æfinguna. Um hádegisbilið var síðan fundur með liðinu í boði þjálfarans. Eitthvað gekk mönnum misjafnlega að vakna á fundinn og einn leikmaður lýsti því yfir að hann þyrfti aldrei að vakna sjálfur. Ekki er hinsvegar ennþá ljóst hver sér um að vakna fyrir hann. Fundurinn var hinsvegar góður og gagnlegur þar sem farið var yfir eitt og annað varðandi undirbúning liðsins. Um klukkan fjögur var haldið niður í skautahöll aftur enda búið að setja á æfingaleik klukkan sex við heimamenn Serba. Ef þeir sem þennan pistil lesa hafa kíkt inná síðuna hjá IIHF sem heldur utan um mótið þá sést að Serbarnir hafa ekki enn birt liðslista sinn (roaster). Ástæðan er sú að þeir leita nú allra leiða til að gera þrjá kanadamenn að góðum og gegnum Serbum. Fátt var að frétta nema hvað þegar íslenska liðið var mætt inn á svell lét það serbneska ekki sjá sig. Leið og beið og á endanum kom skýringin. Serbunum hafði láðst að útvega dómara og voru nú góð ráð dýr. Á endanum var sættust menn á íslenskan dómara og serbneska línuverði. Ónefndur starfsmaður íslenska liðsins sem rekur litla hokkíbúð á Suðurlandsbrautinn var í snarhasti sendur inná svellið sem fulltrúi okkar. Leikurinn fór í gang og áður en yfir lauk höfðu Serbar skorað tíu mörk en íslenska liðið eitt. Ekki fallegar tölur á blaði en margt gott sást í leik íslenska liðsins og engi ástæða til að örvænta. Kanadamennirnir fyrrnefndu leika stórt hlutverk í liðinu og því engin furða þótt Serbarnir reyni sitt ýtrasta. Sá sem þetta skrifar hefur áður skráð lið til keppni til IIHF en aldrei skilað lista inn með svona stuttum  fyrirvara því þegar þetta er skrifað eru aðeins tæpar 2 klukkustundir í vegabréfafund þar sem farið er yfir skráningar inn á mótið.  
Það var hinsvegar Stefán Hrafnsson sem skoraði mark íslenska liðsins en stoðsendingar áttu Jón B. Gíslason og Jónas Breki Magnússon. Eftir leikinn var tekinn góður kvöldmatur og síðan var frjálst kvöld og mismunandi stórir hópar söfnuðust saman til að spila eða gera eitthvað annað afslappandi.
Mannskapurinn er hress og staðráðinn í að gera sitt besta enda andinn í hópnum góður. Einhver meiðsli eru að hrjá okkur og sem dæmi má nefna voru tveir varnarmenn ekki með á æfingunni í gær, þ.e. Ingvar Þór og Sigurður Óli. Mönnum varð því um og ó þegar Orri Blöndal fór útaf slæmur í öxl eftir aðra lotu í leiknum en vonandi verður hægt að púsla mannskapnum saman.

Á morgun..

HH