Ísland - Spánn

Íslenska landsliðið í íshokkí tapaði rétt í þessu naumlega fyrir Spáni með 3 mörkum gegn 4.   Segja má að leikurinn hafi verið kaflaskiptur en mikil barátta einkenndi leikinn frá upphafi.  Dómarinn virtist hafa gleypt flautuna strax á upphafsmínútu leiksins og 1. lotuna spiluðum við meira og minna einum leikmanni færri.  Eina mark lotunnar kom frá Spánverjunum er þeir nýttu sér power play 5 á 3 og mikið hægt við því að gera.
 
Í 2. lotu gekk hins vegar allt á afturfótunum og brottrekstrarvandræðin héldu áfram.  Þeir spænsku gengu á lagið og skoruðu 3 mörk án þess að íslenska liðið næði að svara fyrir sig. 
 
Staðan 4 0 var því staðreynd þegar 3. lota hófst en uppgjöf var ekki að finna á okkar mönnum því þeir mættu tvíefldir til leiks staðráðnir í því að snúa leiknum við, sem þeir og gerðu.  Daníel Eriksson skoraði fyrsta markið eftir harðan slag  og frákast við markið.  Nokkru síðar átti Jón Gíslason mikið upphlaup alla sem hófst í varnarsvæðinu en þegar hann var rétt kominn inn fyrir bláu línuna sendi hann þversendingu yfir á Stefán Hrafnsson sem skaut viðstöðulaust og breytti stöðunni í 2 4. 
 
Skömmu síðar hljóp á snærið á íslenska liðinu þegar Spánverjar fengu tvær brottvísanir á sama tíma sem þýddi fullar tvær mínútur 5 á 3.   Jónas Breki Magnússon nýtti sér tækifærið og minnkaði muninn í 3 4 eftir að hafa hirt upp frákast af mikilli harðfylgni.
 
Þegar akkúrat tvær mínútur voru eftir af leiknum fengu Spánverjarnir brottvísun og því kjöraðstæður fyrir okkur að jafnaleikinn, en þess í stað hlaut liðið tvær klaufalegar liðsvillur (of margir menn á ísnum og leiktöf) og þurftu því að spila 3 á 4 síðasta sprettinn.  Mörkin urðu ekki fleiri en munurinn grátlega lítill. 
Hefðum við haldið okkur úr boxinu og verið 5 á ísnum hefði sigurinn orðið okkar.  Við höfum aldrei unnið Spánverja og höfum alltaf átt í bölvuðu basli með þá.  Svona nálægt sigri höfum við þó aldrei verið áður og er það enn eitt merkið að hér er á ferðinni sterkasta landslið sem Ísland hefur teflt fram.
Birkir Árnason spilaði að nýju þrátt fyrir meiðsli á hné og styrkti það vörnina en einnig hefur Úlfar Andrésson verið að spila vörnina af mikilli festu og áræðni þrátt fyrir að vera í grunninn sóknarmaður.
Daði Örn Heimisson hlaut högg á gagnaugað og þurfti að sauma nokkur spor en hann mætti aftur á ísinn að saumaskapnum loknum, tvíefldur.
Á morgun á liðið frí en síðan taka við tveir hörkuleikir, sá fyrri á laugardaginn gegn heimamönnum og sá seinni á sunnudaginn gegn Mexíkó.

SSS