Á meðan við bíðum eftir Spánarleiknum

Tíminn líður áfram hér í landi andfætlinganna.  Eftir góða leiki gegn Ný Sjálendingum og Kínverjum er liðið nú í óðaönn að undribúa sig fyrir átök dagsins gegn Spánverjum.   Ákveðið var að sleppa morgunæfingunni og taka í staðinn léttan göngutúr og horfa síðan á upptöku af leiknum gegn Kína.
 
Einn af kostum þessa að ferðast til fjarlægra landa er að kynnast nýjum hlutum og upplifa bæði kunnuglega og ókunnuga hluti í gegnum aðra menningu.   Íshokkíið hér í Ástralíu er um margt athyglisvert og á ýmsan hátt ólíkt því sem við þekkjum.  Ástralska íshokkísambandi heldur nú upp á 100 ára afmælið sitt en þeim hefur tekist með einhverjum ótrúlegum hætti að halda úti skautasvelli hér í veðurblíðunni í heila öld.
 
Þegar íslenska liðið spilaði sinn fyrsta leik hér í Ástralíu gegn Íshundunum í Sydney varð liðið að aðlaga sig að nokkrum nýungum.  Fyrst má nefna að upphitun fyrir íshokkíleiki er aðeins tekin 15 mínútum fyrir fyrsta uppkast.  Þ.e.a.s.  teknar eru 10 -15 mínútur í upphitun áður en leikurinn hefst á óhefluðum ís, en þetta gera þeir hér til þess að spara ístímann, sem er dýr.  Í deildunum hér, bæði kvenna og karla, eru síðan spilaðar 3 x 15 mínútna lotur og fyrir því eru helst tvær ástæður.  Annars vegar er um að ræða sparnaðarráð vegna ístímans en hins vegar eru um að ræða tillitsemi við áhorfendur, en með þessu móti styttist leikurinn niður í 1 klst og 45 mínútur.  Áströlunum finnst þeir eiga meiri möguleika á því að ná áhorfendum á leikina ef þeir eru styttri kannski ekki svo galið.
 
Annað sem leikmenn þurftu að venjast er að hér er ekki gler í kringum svellið heldur aðeins net.  Í Sydney var net sem náði alveg upp í loft allan hringinn í kringum ísinn og öfugt við það sem við héldum þá er leikurinn ekki stoppaður færi pökkurinn í netið og skipti þá engu máli hversu hátt pökkurinn fór.  Þetta þurftu markmenn að læra, því jafnvel þó pökkurinn færi 10 metrum yfir markið þá skoppaði hann jafnharðan inn á ísinn aftur og leikurinn hélt áfram.  Þetta fyrirkomulag fækkaði stoppum mikið á leiknum.
 
Þegar Newcastle skautahlaðan hlaut hnossið að halda þetta heimsmeistaramót þá var ráðist í það að setja upp gler skv reglum IIHF og er þetta því fyrsta og eina svellið í álfunni sem er með gler í kring.
 
Það er skemmtileg tilbreyting að spila íshokkí innan um pálmatré og hvítar strendur og okkur er ekki einum um að finnast það.  Fyrirliði ástralska landsliðsins, Anthony Wilson, hjálpaði okkur við að skipuleggja þessa ferð og þá helst dagana okkar í Sydney.  Hann er jafnfram framkvæmdastjóri Íshundanna og hann segir að hann fái u.þ.b. 1500 umskóknir á áru frá íshokkíspilurum víðs vegar um heiminn sem vilja koma og spila.  Ástralska íshokkítímabilið nær frá aprlíl fram í september og því eru flesti íshokkíleikmenn heimsins á lausu meðan á því stendur og því þykir mörgum það upplagt að eyða sumrinu í hokkí og brimbrettaiðkun.  Að þessu leiðir að í deildinni hér spilar mikið af mjög góðum leikmönnum, mörgum sem jafnvel eru atvinnumenn annarsstaðar en koma hingað fyrir lítið eða ekki neitt. 
 
Þetta hefur síðan leitt til þess að leikmenn hafa sest hér að og t.a.m. eru 7 leikmenn í ástralska liðinu sem fæddir eru annarsstaðar.  5 eru frá Norður Ameríku, einn frá Tékklandi og annar frá Hvíta Rússlandi.  Þeir er t.d. með tvo nýja leikmenn í liðinu núna, eitt Kanadamann og einn Tékka en sá kanadíski fékk vegabréfið sitt þann 1. apríl, 4 dögum fyrir keppni.
 
Skv áströlskum reglum um erlenda leikmenn þá má hvert lið gera samning við 7 leikmenn en aðeins 5 mega vera á leikskýrslu í hvert sinn.  Þetta hefur sína kosti og galla, auðvitað missa einhverjir ungir leikmenn sæti sín, en á móti kemur að mögulegt er að halda úti 8 liða deild sem telja verður býsna sterka vegna fjölda frambærilegra erlendra leikmanna.  Innlendu leikmennirnir venjast því að spila í sterkri deild og upplifa gott hokkí.
 
En nú styttist í brottför til skautahlöðunnar þar sem tekist verður á við Spánverja.  Áfram Ísland!