Fyrsti keppnisdagur

Þá er fyrsta degi okkar hér í Newcastle lokið.  Við fórum beint í skautahöllina og áttum okkar fyrstu æfingu á keppnisstað og það er óhætt að segja að aðbúnaður hér í Newcastle sé bágborinn í samanburði við skautahöllina í Sydney.  Hér um að ræða gamla hlöðu sem var ekki byggð fyrir íshokkí, lágt til lofts, litlir búningsklefar og ein sturta.  Til þess að bæta úr því hefur gámum verið komið fyrir úti á bílaplani með sturtum í sem eru bara með köldu vatni sem er kannski ágætt því nú virðist allt hangs í sturtinni heyri sögunni til.  En aðstaðan hér skiptir engu máli, ísinn sjálfur er ágætur og strákarnir eru bara jákvæðir enda er það liðið og spilamennskan sem skiptir máli.
 
Hótelið sjálft er gott og maturinn er góður, veðrið er gott og stutt er á ströndina þannig að hér nú ekki um neinar þrælabúðir að ræða.  Bærinn er annálaður brimbrettabær og t.a.m. er alla þessa viku brimbrettafestival í bænum.
 
Nú er dagur að kvöldi kominn á Íslandi en hér kominn morgun og fyrsti leikdagur.  Við mætum Nýja Sjálandi í fyrsta leik og það er góð stemning í hópnum.  Þjálfarar liðsins ákváðu að sleppa ísæfingu í morgun og taka heldur góðan göngutúr og teygjuæfingar.