Ennþá á leiðinni

Þá er fyrsti sólahringurinn liðinn af ferð okkar til Ástralíu, hann hefur ekki gengið alveg þrautalaust,en flest hefur gengið upp á endanum. Fyrstu vandræðin voru að nokkrir lentu í töfum á Reykjanesbrautinni vegna mótmæla vörubílstjóra. Ég fékk far með Vidda sem skutlaði Þorhalli og Emil, við lentum rétt fyrir aftan trukkana en gátum skotið okkur framhjá, þannig að við sluppum á tíma, en Stebbi rauði og Biggi Hansen voru fastir þangað til mótmælin hættu og var okkur ekkert farið að lítast á blikuna um tíma, en þeir komust fyrir brottför, þannig að allir komu með.
Það var ekki hægt að tékka farangurinn inn alla leið vegna vandræða sem hafa verið undanfarið á Heathrow, þar sem farangur hefur ekki verið að skila sér á rétta staði, þannig að það var fyrirsjáanlegt að við þyrftum að taka allt með okkur á milli flugstöðva, en við fórum frá terminal 4. Ein taska skilaði sér ekki til London en það er fatataskan hans Ómars Smára. Þegar til London var komið var ekki hægt að tékka inn fyrr en þremur tímum fyrir flug þannig að við fundum geymslu fyrir farangurinn, af því við þurftum að bíða tæpa 10 tíma eftir fluginu til Sydney. Það flæktist aðeins fyrir þeim sem tóku við farangrinum þegar birtist allar þessar stóru hokkítöskur og það tók all nokkurn tíma að koma þeim fyrir. Ætlunin var svo að hittast þremur og hálfum tíma fyrir flug og taka farangurinn aftur. Nokkrir fóru niður í bæ og fengu sér að borða, Úlli var í þessum hóp en hann varð tvítugur þannig að hann var skreyttur blöðrum á meðan borðað var. Þegar komið var til baka var svæðið þar sem farangurinn var geymdur lokað vegna grunsamlegs pakka þannig að við máttum bíða dágóðan tíma áður en við fengum töskurnar aftur. Svo kom að því að tékka hópinn inn, en til að komast til Ástralíu þarf að fá áritun sem er sótt rafrænt á netinu, þá kom í ljós að eitthvað virtist vera að áritunnin hjá Denna, Hédda og Gumma chokko, það tók töluverðan tíma að leysa úr því en það hafðist á endanum, þannig að þeir eru ennþá með. Það sýnir sig að það verður að gera ráð fyrir góðum tíma þegar verið er að ferðast með svona hóp. Þannig að Siggi hefur haft nóg að gera við að láta allt ganga upp.
Þegar þetta er skrifað er stutt í að við lendum í Singapúr eftir flug í 12 og hálfann tíma, það er millilent þar og svo haldið áfram til Sydney, þar sem rúta bíður okkar sem flytur okkur þangað sem við gistum, síðan er æfing upp úr hádegi.
 
Helgi