Jötnar - Björninn umfjöllun

Úr leik liðanna.                                                                                                       Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Jötnar og Björninn léku síðasta leikinn fyrir jólafrí á Akureyri í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 6 mörk gegn 2 mörkum heimamanna í Jötnum.

Bjarnarmenn voru sókndjarfari allan leikinn á meðan heldur fjaraði undan Jötnum þegar á leið. Bæði lið voru þó spræk í fyrstu lotu og varnarmaðurinn Steindór Ingason kom Birninum yfir þegar einungis 20 sekúndur voru liðnar af leiknum. Félagi hans úr unglingalandsliðinu, Brynjar Bergmann bætti svo við marki þremur mínútum síðar og allt á réttri leið fyrir Björninn. Jötnar gerðu sér hinsvegar lítið  fyrir og jöfnuðu leikinn á stuttum kafla skömmu síðar en Stefán Hrafnsson átti bæði mörkin. Staðan jöfn eftir fyrstu lotu 2 – 2.

Önnur lotan var hinsvegar erfiðari Jötnum því strax í byrjun hennar skoraði Richard Tahtinen fyrir Bjarnarmenn. Ekki bætti úr skák að Stefán Hrafnsson, sem gert hafði bæði mörk Jötna, eyddi 12 mínútum í refsiboxinu. Ólafur Hrafn Björnsson bætti síðan við marki fyrir Björninn rétt eftir miðja lotu og staðan eftir aðra lotu 2 – 4 Birninum í vil.

Björninn bætti síðan við tveimur mörkum í þriðju lotu og innsiglaði þar með sigur sinn. Sturla Snær Snorrason skoraði fyrra mark Bjarnarmanna í lotunni en þetta var jafnframt fyrsta mark Sturlu í meistaraflokki karla. Síðara markið átti varnarmaðurinn Birkir Árnason en stoðsendinguna átti varnarmaðurinn Steindór Ingason.

Þrjú efstu liðin berjast hart um sæti í úrslitakeppninni í mars. Ef litið er á fengin stig/möguleg stig í stigatöflunni kemur þetta í ljós:

Björninn

77,78%

Víkingar

77,78%

SR

79,17%


Mörk/stoðsendingar Jötnar

Stefán Hrafnsson 2/0
Lars Foder 0/1
Birgir Þorsteinsson 0/1

Refsingar Jötnar: 22 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Steindór Ingason 1/2
Ólafur Hrafn Björnsson 1/1
Brynjar Bergmann 1/0
Richard Tahtinen 1/0
Birkir Árnason 1/0
Sturla Snær Snorrason 1/0
Matthías S. Sigurðsson 0/1
Falur Birkir Guðnason 0/1

Refsingar Björninn: 10 mínútur.