Jan-Ake fyrrum framkvæmdastjóri IIHF

Jan-Ake Edvinsson fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóða Íshokkísambandsins féll frá síðstliðin þriðjudag 6.desember í Stokkhólmi.

Jan-Ake var alla sína tíð sem framkvæmdastjóri IIHF mjög virkur stuðningmaður þess að Íshokkí næði fótfestu á Íslandi og studdi baráttu okkar Íslendinga um að verða viðurkenndir sem fullgildir meðlimir alþjóða íshokkífjölskyldunnar. Við fullgildingu fengust aukin framlög til uppbyggingarstarfsins hér á landi.

Hann kom til Íslands sem heiðursgestur á stofnfundi Íshokkísambands Íslands 4. nóvember 2004 þegar íshokkíhreyfingin klauf sig frá Skautasambandi Íslands og stofnað var sjálfstætt sérsamband um íshokkí íþróttina. Við það tækifæri færði Íshokkísambandið Jan-Ake heildar útgáfu íslendingasagna þýdda á ensku, sem hann var ákaflega glaður með. 

Jan-Ake var framkvæmdastóri IIHF á árunum 1986 til 2006 og er talin vera helsti arkitektinn af skipulagi IIHF og hvernig það starfar í dag. Stór persóna sem sannarlega á mikin þátt í uppgangi okkar íþróttar, ekki bara hér á landi heldur víða um heim. 

Íshokkísambandið sendir sínar dýpstu samúðarkveðjur til vina og ættingja sem syrgja fallin höfðingja.