Ísrael - Ísland umfjöllun

Sumir myndu segja að það væri fullseint í rassinn gripið að fara að skrifa um leik Ísrael og Íslands sem fram fór á mánudaginn síðasta en svona er þetta stundum. Leikurinn sem var miðleikur síðasta dags II deildar A-riðils á HM og réð því hvort liðið tæki 4. sætið. Þrátt fyrir að íslenska liðið væri töluvert betra meirilhluta leiksins fór það þó þannig að lokamínúturnar urðu æsispennandi. Sigurinn eins og flestir vita var þó okkar manna en þeir gerðu 4 mörk gegn 3 hjá andstæðingunum. Til að vinna ísrael þarf að spila hratt hokkí þar sem allir leikmenn eru sífellt á hreyfingu því þeir gera allt sem þeir geta til að halda hraða leiksins niðri. Í fyrstu lotunni náði íslenska liðið að gera þetta nokkuð vel og fyrsta markið kom strax eftir um tvær mínútur. Íslendingar voru þá manni fleiri á ísnum og nýtti það vel (Emil, Robin, Gauti, Ingvar og Jónas Breki). Stefán Hrafnsson bætti síðan við marki rétt eftir miðja lotu og staðan því 0 – 2 eftir fyrstu lotu.

Egill Þormóðsson kom síðan íslenska liðinu í 0 – 3 með góðu skoti upp í vinkilinn í byrjun annarrar lotu en á þeim tíma lék íslenska liðið 3 á 5. Stoðsendingar áttu Pétur Maack og Jón B. Gíslason. Íslenska liðið sótti meira í lotunni almennt  en þegar fimm mínútur voru eftir náðu ísraelsmenn að minnka muninn í 1 – 3 og þannig var staðan þegar lotunni lauk.

Stefán Hrafnsson jók muninn fyrir íslenska liðið í 3ju lotu og staðan nokkuð efnileg en segja má að í síðustu lotunni hafi íslenska liðið svolítið farið niður á planið sem ísraelsmenn vildu hafa þá á. Þeir minnkuðu líka muninn með tveimur mörkum og lokamínúturnar voru æsispennandi. M.a. náði íslenska liðið pekkinum eftir að ísraelsmenn höfðu tekið markmanns sinn útaf í skiptum fyrir sóknarmann. Íslenska leikmanninum var það hinsvegar ekki ljóst og heyrði ekki köll félaga sinna og skaut því ekki á markið. Sigur íslenska liðsins var hinsvegar fyllilega sanngjarn og fjórða sætið okkar.

Fjórða sætið er besti árangur liðsins á HM hingað til sem sýnir að hokkí á íslandi er á réttri leið. Allir leikmenn fengu að spila og var breiddin notuð óspart. Þetta kemur til með að nýtast okkur í framtíðinni því öll spilareynsla er af hinu góða. Liðið fór með níu nýliða í ferðina, þ.e. rúmlega 40% liðsins, og þeir geta jafnt sem aðrir leikmenn verið stoltir af frammistöðu sinni á þessu móti.

Myndin kemur frá Pétri Maack

HH