Íslenskur sigur í fyrsta leik á HM

Strákarnir okkar voru rétt í þessu að ljúka sínum fyrsta á leik á HM U18 í Skautahöllinni á Akureyri.   Eftir erfiða byrjun náðu þeir að snúa við taflinu og vinna Mexíkó með 5 mörkum gegn 3.   Staðan eftir fyrstu lotu var 1-1 eftir mark frá Ólafi Björgvinssyni.  Í 2. lotu voru gestirnir sterkari og skoruðu 2 mörk án þess Ísland næði að svara og því var staðan 1-3 þegar blásið var til 3ju og síðustu lotunnar.

Uni Blöndal minnkaði muninn í power play strax á fyrstu mínútunni og Arnar Kristjánsson jafnaði leikinn fimm mínútum síðar og allt ætlaði um koll að keyra í höllinni.  Arnar var svo aftur á ferðinni á 54. mínútu og breytti stöðunni í 4-3 og Birkir Einisson skoraði svo á loka mínútunni í tómt markið og innsiglaði 5-3 sigur.

Gríðarlega góð mæting var í höllina og þétt setið á pöllunum.  Áhorfendur létu vel í sér heyra og frábært var að sjá þennan stuðning við strákana.  Næsti leikur liðisins er svo annað kvöld kl 20:00 og mótherjarnir eru Bosnía-Herzegóvenía.  

 

Mörk og stoðsendingar íslenska liðsins:

Arnar Kristjánsson 2/1
Birkir Einisson 1/2
Uni Blöndal 1/1
ÓIafur Björvinsson 1/0
Aron Ingason 0/1
Kristján Jóhannesson 0/1