Íslandsmótið að hefjast

Íslandsmótið í íshokkí hefst á morgun, þriðjudag, með tveimur leikjum í karlaflokki þegar mætast annarsvegar Skautafélag Reykjavíkur og Esja í Laugardalnum og hinsvegar Björninn og Skautafélag Akureyrar í Egilshöll. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19.45.
Áberandi leikmenn frá síðasta tímabili s.s. Ben DiMarco (SA), Victor Anderson (SR) og Nicolas Antonoff (Björninn) eru horfnir á braut en allt í allt eru ellefu erlendir leikmenn farnir. Flest félögin eru þó að vinna í að styrkja sig með erlendum leikmönnum en erlenda félagaskiptatímbilinu lýkur ekki fyrr en 1. nóvember nk. Nokkuð hefur verið um innlend félagaskipti einnig en tveir leikmenn SA eru á leið suður. Ingólfur Tryggvi Elíasson mun leika með SR í vetur en Andri Freyr Sverrisson gekk til liðs við Esju. Björn Róbert Sigurðarson og Brynjar Bergmann eru einnig meðal leikmanna sem hafa haft félagaskipti yfir í Esju en lista yfir félagaskipti má sjá hér.

Gauti Þormóðsson mun þjálfa Esju og Gunnlaugur Björnsson SR einsog á síðasta tímabili. Brynjar Freyr Þórðarson þjálfar Björninn nú um stundir og til SA er kominn finnskur þjálfari, Jussi Sipponen.

Fróðlegt verður að sjá hvernig liðin koma undan vetri en töluvert álag mun verða á leikmönnum þar sem mótið verður spilað þétt. Mótaskránna má sjá hér hægra meginn á síðunni en einsog endranær verða leikir vikunnar undir "Næstu leikir".

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH