Ísland - Tyrkland (viðbót)

Það styttist óðum í leik Íslands og Tyrklands á U20 mótinu í Tyrklandi. Með sigri tryggir íslenska liðið sér sigur í riðlinum. Miðað við frammistöðu Tyrkjanna hingað til ætti sigurinn að vera nokkuð vís. En einsog í öðrum leikjum þarf að hafa fyrir honum. Fyrr í dag unnu Ástralir lið Nýja-Sjálands með 5 mörkum gegn 1. Leikurinn var nokkuð harður enda um "derby" leik að ræða. Ástralska liðið var þó, að sögn fararstjórnar íslenska liðsins, áberandi betra. Þetta þýðir að ef íslenska liðið vinnur sinn leik seinna í dag þá leikur það í undanúrslitum gegn Ný-Sjálendingum á laugardag.

Samkvæmt fararstjórninni hafa allir leikir tyrkneska liðsins verið sýndir í sjónvarpi og áttu hún ekki von á öðru en svo yrði einnig í kvöld. Við höfum farið yfir dagskrá tyrkneska sjónvarpsins á netinu í von um að sjá mætti leikinn í netútsendingu. Við höfum ekki fundið leikinn ennþá en seinna í dag gæti birst á síðunni okkar tengill, þ.e. ef hann finnst. Ef einhver sem þetta les hefur fundið leikinn á netinu er hann vinsamlegast beðinn um að senda okkur póst á ihi@ihi.is.

Athugið: Leikurinn verður ekki sýndur í sjónvarpi (skv. fararstjórn).

Myndina tók Viðar Garðarsson.

HH