Ísland tapar fyrir Spáni 2 - 5

Ólíkt fyrri viðureignunum tveimur í þessari keppni fóru okkar menn vel af stað að þessu sinni og Stefán Hrafnsson skoraði eina mark 1. lotu eftir sendingar frá Ingvari Þór Jónssyni og Emil Alengard en færin voru fjölmörg og með smá heppni hefði munurinn orðið miklu meiri.
 
Spánverjar lentu í miklum brottrekstrarvandræðum í upphafi 2. lotu og segja má að íslenska liðið hafi spilað manni fleiri fyrstu 10 mínúturnar í lotunni en án þess að skora mark.  Illa tókst að stilla upp inni í svæðinu og næsta víst að eitthvað verður að vinna í powerplay-inu fyrir næsta leik.  Spánverjar hins vegar nýttu sín tækifæri og skoruðu tvö mörk einum í fleiri í lotunni og snéru leiknum sér í vil og staðan því orðin 2 - 1 þegar lotunni lauk.
 
Spánverjarnir juku muninn í 3 - 1 strax á 2. mínútu 3. lotu en Gauti Þormóðsson minnkaði muninn aftur í 3 - 2 eftir sendingu frá Emil Alengard.  Lengra komust okkar menn ekki en þeir spænsku bættu við tveimur powerplay mörkum í viðbót fyrir lok leiksins og urðu lokatölur því 5 - 2.  Það verður að segjast eins og er að fá á sig 4 mörk einum leikmanni færri er alls ekki nógu gott, ekki síst þegar litið er til þess að liðinu tókst svo ekki að nýta sér mismuninn þegar hallaði á Spánverjana.  Úrslitin breyta þó ekki því að frammistaða liðsins er til mikil sóma og greinilegt að þetta lið er eitt það sterkasta, ef ekki það sterkasta sem Ísland hefur teflt fram á heimsmeistaramóti í fullorðinsflokki.  Í fyrri viðureignum gegn Spánverjum hefur Ísland aldrei séð til sólar en í dag má segja að okkar eigin brottrekstrarvandræði hafi fært Spánverjum sigurinn.
 
Á morgun leikur liðið svo gegn heimamönnum, Serbíu-Svartfjallalandi.  Liðin áttust síðast við í Novi-Sad í Serbíu fyrir þremur árum og lauk þeirri viðureign með 8 - 1 sigri Serbanna.  Þau úrslit gáfu þó ekki alveg rétta mynd  því staðan í þeim leik var 0 - 0 eftir fyrstu lotu og síðan skoraði Ísland fyrsta markið í 2. lotu og héldu forystunni fram í miðja lotuna en rákust þá á vegg.  Ef liðið heldur sama dampi þá verða Serbarnir sigraðir á morgun - áfram Ísland!